149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[22:09]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Sala áfengis í einkareknum smávöruverslunum væri ekki framfaraspor fyrir íslenska þjóð. Í mörgum löndum er framleiðsla og sala á áfengi tekjulind fyrir bændur, framleiðendur, auglýsingastofur, rekstraraðila fjölmiðla og fjárfesta. Áfengi er einnig atvinnuskapandi. Það aflar gjaldeyristekna vegna útflutnings og ríkissjóður hagnast vegna álagningar áfengisgjalds. Áfengi er því efnahagslega mikilvægt en ábatinn af sölu og framleiðslu áfengi er samfélaginu afar dýrkeyptur.

Velferðarnefnd Norðurlandaráðs fór í vandaða og umfangsmikla vinnu í þessum málaflokki fyrir fáum árum síðan þar sem gögn frá fjölmörgum rannsóknaraðilum voru skoðuð ítarlega. Í kjölfar þeirrar skoðunar sammæltist nefndin um að leggja fram tillögu sem síðan varð opinber stefna Norðurlandaráðs og var þess þá vænst að norræn ríki fylgdu henni. Íslensk stjórnvöld ákváðu í kjölfar stefnumörkunar Norðurlandaráðs á þessu sviði að setja sér yfirmarkmið í áfengis- og vímuvörnum fram til ársins 2020. Eitt af þeim markmiðum var að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímuefnum. Því er umrætt frumvarp algerlega á skjön við stefnu stjórnvalda. Í fylgiskjölum með tillögu velferðarnefndar Norðurlandaráðs er ótvírætt sýnt fram á að aðgengi skiptir miklu máli hvað varðar neyslu, þar með talið neyslu ungmenna. Einnig er talið að forvarnir skipti því miður minna máli en menn hafa almennt talið.

Svo allrar sanngirni sé gætt gagnvart fyrirlögðu frumvarpi er þar gert ráð fyrir auknum fjármunum til forvarna. Góð hugsun, en því miður mun sú leið ekki þjóna tilgangi sínum ef við göngum út frá niðurstöðum fyrrgreindra rannsókna á þessum þætti. Það sem sagt er að skipti hins vegar mestu máli varðandi neyslu eru eftirfarandi atriði: Í fyrsta lagi álagning skatta á áfengi, í öðru lagi áfengisverslun ríkisins, í þriðja lagi aldurstakmörk, í fjórða lagi takmarkað aðgengi, þ.e. takmarkaður fjöldi útsölustaða og opnunartíma. Í fimmta lagi bann við beinni og óbeinni markaðssetningu, í sjötta lagi mörk gagnvart akstri undir áhrifum 0,5 eða 0,2‰ og sýnilegt og óvænt tilfallandi eftirlit löggæsluaðila. Að síðustu: Ráðgjöf á heilsugæslunni og öflugri meðferð fyrir þá sem háðir eru áfengi.

Embætti landlæknis hefur m.a. bent á að með aukinni áfengisneyslu aukist samfélagslegur kostnaður, sem er í fullu samræmi við erlendar rannsóknir og tölfræði. Tengsl milli áfengisvímu og skaða eru skýr og greinileg, sérstaklega hvað varðar ofbeldi, umferðarslys eða önnur slys. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni mátti á árinu 2000 rekja 4% allra dauðsfalla og örorku í heiminum til áfengis. Áfengi reyndist því fimmti skaðlegasti áhættuþátturinn af þeim 26 sem kannaðir voru. Tölurnar sýna okkur að áfengi veldur álíka miklu heilsutjóni og tóbak, en þó má mögulega leiða að því líkur að tóbak sé minna skaðlegt þar sem töluvert minni líkur eru á að reykingamaður valdi t.d. bílslysi, beiti ofbeldi eða lendi sjálfur í slysi, samanborið við þann sem er undir áhrifum áfengis eða undir áhrifum annarra vímugjafa.

Undanfarin ár hefur markvisst verið unnið að því að gera tóbak minna sýnilegt í verslunum, hindra aðgengi að því sem og að bæta merkingar á umbúðum sem gefa til kynna hversu heilsuspillandi og hættuleg varan er. Sambærilegar upplýsingar eru ekki á merkingum á áfengisflöskum. Fram hefur komið að ein besta aðferðin til að stemma stigu við notkun áfengis sé að takmarka sölu þess við ákveðna staði og með ákveðnu eftirliti, svipað og gert er á Íslandi nú í dag. Jafnframt hefur komið fram í erlendum rannsóknum, m.a. rannsóknum sem velferðarnefnd Norðurlandaráðs hefur stuðst við í verkefnum sínum, eins og ég hef áður nefnt, að með auknu aðgengi að áfengi séu ýmsar vísbendingar um að áfengisdauði og umferðarslys af völdum áfengis hafi aukist og einnig hafi ofbeldi farið vaxandi.

Einnig má sjá að tengsl eru á milli áfengisneyslu, svefns og frammistöðu í háskóla. Áfengisneysla getur haft marktæk áhrif á lengd svefntíma og óreglu í svefnvenjum og jafnframt hefur áfengisneysla marktæk áhrif á einkunnir og námsárangur nemenda. Ótvíræðar niðurstöður fjölmargra alþjóðlegra rannsókna sem liggja fyrir benda því allar í sömu átt, þ.e. að áfengisneysla í óhófi sé skaðleg og að aukið aðgengi að áfengi og aukinn sýnileiki þess auki svo aftur neysluna. Það liggur fyrir.

Frú forseti. Ég ætla að koma aðeins inn á samfélagslegan kostnað. Þar sem lagt hefur verið til að áfengissala fari fram í verslunum en ekki á vegum ríkisins hefur kostnaður ávinnings af einkasölu verið kannaður. Rannsóknir og greinar þess efnis byggja á þriggja áratuga gömlum gögnum frá ýmsum ríkjum Bandaríkjanna. Þar kemur fram að þegar ríkið var með sölu á áfengi var áfengisneysla um 12–15% minni. Hún jókst sem sagt um þessar prósentur við að salan færi til verslana á sínum tíma. Þarna eru sterkar vísbendingar um að ríkið sé ábyrgari söluaðili áfengis en einkaaðilar og mögulega minni hvatar til markaðssetningar og sýnileika þegar sala er á hendi ríkisins.

Síðan er önnur rannsókn frá Kanada. Þar var gert mat á samfélagslegum kostnaði sem fylgdi einkavæðingu áfengissölu. Gerð var greining á því að ef öll fylki í Kanada myndu einkavæða sölu áfengis myndi áfengisneysla aukast um 10–20%. Við getum auðveldlega yfirfært þessar tölur á okkur. Mennirnir eru allir eins, sama hvort þeir búa á Íslandi eða í Kanada. Væri það þá skref í rétta átt? Ég er sannfærð um að svo sé ekki.

Í umræðum um málið á Alþingi hafa verið færð gild rök fyrir því að mínu mati að þjónustan við íbúa á landsbyggðinni sem vilja versla áfengi muni ekki batna, samþykkjum við fyrirliggjandi frumvarp. Síður en svo. Yfirgnæfandi líkur eru á að úrval áfengistegunda muni minnka og verð hækka. Verslunum sem selja áfengi mun einnig fækka. Ég get ekki betur heyrt þegar ég ræði þessi mál við fólk sem býr á landsbyggðinni eða í hinum dreifðari byggðum, skulum við segja, að það sé ánægt með núgildandi fyrirkomulag á sölu áfengis og vilji engu breyta þar um. Þannig að það er ekki svo að eftirspurn sé eftir breytingum á lögum um sölu áfengis hjá fólki, sérstaklega ekki í hinum dreifðari byggðum og í raun hjá sárafáum Íslendingum þegar nánar er að gáð, a.m.k. ef marka má þær skoðanakannanir sem framkvæmdar hafa verið hin síðari ár þar sem spurt er að því.

Það er því alveg augljóst að með framlagningu þessa frumvarps er ekki verið að gæta hagsmuna almennings í landinu, hvorki hvað varðar heilsufarsleg og félagsleg áhrif, ef leyft verður, né hvað varðar þjónustu við íbúa vítt og breitt um landið. Ég kem í raun ekki auga á einn einasta kost við þessa lagabreytingu nema þá helst að veita eigi aukið fé til forvarna. Eins og áður sagði er gallinn við það að slík ráðstöfun hefur sáralítil áhrif hvað varðar neysluna.

Svo gætum við auðvitað allt eins veitt aukið fé til forvarna án þess að breyta lögum um sölu áfengis, ef við viljum gera það. Augljóst er að hér er eingöngu um gróðasjónarmið verslunarinnar að ræða, ekkert annað. Við erum með gott kerfi sem engin ástæða er til að breyta þar sem kostirnir við breytingar eru engir, aðeins stórkostlegir gallar, eins og þetta liggur fyrir.

Alþingi hefur fengið þetta og sambærileg frumvörp nokkrum sinnum áður til umfjöllunar. Segja má að málið sé orðið klassískt í þessum sal. Það gerir það hins vegar ekki betra, þvert á móti. Það er jafn slæmt og það var þegar það kom fyrst fram þó svo að ýmsar breytingar hafi verið gerðar á því. Rökin gegn því eru og verða þau sömu.