149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

merking á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu.

119. mál
[23:22]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um merkingu á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu. Flutningsmenn að þessari tillögu eru ásamt mér hv. þm. Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Ólafur Þór Gunnarsson, Helga Vala Helgadóttir og Jón Steindór Valdimarsson. Texti þingsályktunartillögunnar sjálfrar er ekki langur en hann hljómar svona, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að grípa til nauðsynlegra ráðstafana annars vegar til að merkja uppruna vara sem framleiddar eru á hernumdum svæðum Palestínu með viðeigandi hætti og hins vegar til að gera Palestínumönnum kleift að nýta sér kosti fríverslunarsamnings EFTA og Palestínu.“

Til að fjalla nánar um þetta mál ætla ég að fara yfir greinargerðina. Texti þingsályktunartillögunnar sjálfrar er stuttur og má segja að kjötið utan á beinin fylgi með í greinargerðinni. Tillagan hefur verið flutt áður á 141.–145. löggjafarþingi sem og á 146. löggjafarþingi en var þá ekki afgreidd og nú er hún endurflutt óbreytt. Í greinargerðinni hafa tölur sem varða viðskiptatölfræði verið uppfærðar og reynt að styðjast þar við nýjustu upplýsingar sem eru tiltækar.

Stjórnmálasamband Íslands og Ísraels á sér nokkuð langa sögu og hafa viðskipti milli þjóðanna verið töluverð. Samkvæmt tölum frá Hagstofunni nam innflutningur þaðan 1.020,7 millj. kr. árið 2011 en 774,1 millj. kr. árið 2015, 631,7 millj. kr. árið 2016 og fór svo upp í 922,4 millj. kr. árið 2017. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands var á árunum 2010–2018 — þetta er eitthvað skrýtinn texti — ekkert flutt inn frá Palestínu. Það þarf eitthvað að skoða tölurnar hér, forseti, ég biðst forláts á því.

Víða um heim hafa stjórnvöld og neytendur vaknað til vitundar um að hluti útflutningsvara frá Ísrael eigi uppruna sinn ekki að rekja til svæða innan alþjóðlegra viðurkenndra landamæra Ísraelsríkis heldur til ólöglegra landnemabyggða á hernumdum svæðum Palestínu. Þær eru einkum á vesturbakka Jórdanar og í austurhluta Jerúsalemborgar. Þessum byggðum hefur farið fjölgandi enda þótt þær stríði gegn alþjóðlega viðurkenndum landamærum, úrskurði Alþjóðadómstólsins í Haag og fjölda ályktana Sameinuðu þjóðanna.

Eins og gefur að skilja hefur þessi þróun skaðað lífskjör Palestínumanna en ekki má heldur vanmeta hversu umdeildar byggðirnar eru meðal ísraelskra borgara líka. Núverandi stjórnvöld í Ísrael virðast þó fylgja þeirri stefnu að taka aukið land sem og vatnsból frá Palestínumönnum undir byggðir landnema. Af þeim sökum hafa þær reynst einn helsti þröskuldurinn í vegi frekari friðarviðræðna fyrir botni Miðjarðarhafs auk þess sem reglulega kemur til átaka milli landnema og Palestínumanna sem verða að sjá af ræktarlöndum sínum.

Ísland hefur ekki frekar en Sameinuðu þjóðirnar viðurkennt landnemabyggðirnar sem hluta Ísraelsríkis. Því ætti ekki að viðurkenna Ísraelsríki sem upprunaland þeirra vara sem framleiddar eru í landnemabyggðunum. Nokkur lönd hafa unnið að reglugerðum þess efnis að upprunamerking þessara vara verði umræddar landnemabyggðir en ekki Ísrael. Framkvæmdastjórn ESB hefur m.a. sent frá sér leiðbeiningar um slíkar merkingar.

Stjórnvöld í þeim löndum sem hafa farið út í svona merkingar hafa m.a. orðið að bregðast við ásökunum um að ætlunin sé að draga úr viðskiptum við Ísrael. Þessu hefur m.a. viðskipta- og iðnaðarráðherra Suður-Afríku, Rob Davies, hafnað og bent á að það sé skylda þarlendra stjórnvalda að framfylgja lögum um neytendavernd með þessum hætti, enda sé í þeim kveðið á um að uppruni vara skuli tilgreindur. Þetta höfum við auðvitað rætt í allt öðru samhengi hér á Íslandi, í tengslum við íslenskan landbúnað, þar sem við viljum vita hvar vörurnar sem við kaupum í búðunum eru framleiddur. Það eru einmitt helst landbúnaðarvörur sem um er að ræða þegar kemur að framleiðslu á landtökusvæðunum í Ísrael og þær hafa m.a. verið til sölu í íslenskum verslunum.

Svo ég nefni aftur Suður-Afríku þá hefur þar verið bent á að sem meðlimur í Sameinuðu þjóðunum geti Suður-Afríka ekki viðurkennt landnemabyggðirnar sem hluta af Ísraelsríki og því sé ekki hægt að tilgreina Ísrael sem upprunaland vara sem framleiddar eru þar. Þá má einnig bæta við að í Sviss hafa stórmarkaðakeðjurnar Migros og Coop haft frumkvæði að því að sérmerkja vörur frá landnemabyggðum og upplýst að það sé til þess að veita viðskiptavinum fullnægjandi upplýsingar um vörurnar sem í boði eru, til að uppruninn sé ljós, en ekki til að hvetja til þess að sniðganga ísraelskar vörur.

Með þeim ráðstöfunum sem þessi þingsályktunartillaga kallar eftir yrði íslenskum neytendum gert kleift að taka sjálfir ákvörðun um hvort þeir vilja styðja efnahagslíf á ólöglegum landnemabyggðum á hernumdu svæðunum í Palestínu. Ekki er víst að sérmerking slíkra vara hefði mikil áhrif á viðskipti Íslands og Ísraels, það mætti jafnvel færa rök fyrir því að þær myndu frekar gera þær vörur sem skráðar eru sem ísraelskar síður tortryggilegar.

Fríverslunarsamtök Evrópu, EFTA, og Frelsissamtök Palestínumanna, PLO, hafa gert með sér bráðabirgðafríverslunarsamning sem tók gildi 1. júlí 1999 og fylgir með þessari þingsályktunartillögu sem fylgiskjal og er prentaður með henni. Tilgangurinn með gerð bráðabirgðasamningsins við PLO var að tryggja jafnvægi milli EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsríkjanna í viðskiptum við löndin við sunnanvert Miðjarðarhaf. Þá var samningurinn talinn mikilvægur hlekkur í stuðningi við friðarferlið fyrir botni Miðjarðarhafs. Skemmst er frá því að segja að samningurinn hefur ekki verið virkur sem skyldi og viðskipti EFTA við heimasvæði Palestínumanna eru takmörkuð. Heildarviðskiptin námu einungis 23,3 milljónum bandaríkjadala árið 2015 og voru í reynd einungis útflutningur EFTA til Palestínumanna. Þá hefur því verið haldið fram að Ísrael komi í reynd í veg fyrir að Palestínumenn nái að fullnusta þennan samning og njóta þeirra fríðinda sem honum fylgja því að landsvæði Palestínumanna séu sundurrist af múrum sem koma í veg fyrir það að þeir geti yrkt land sitt og eðlilegir vöruflutningar geti farið fram.

Eins og ég gat um áðan þá fylgir samningurinn milli EFTA og Frelsissamtaka Palestínu með þessari þingsályktunartillögu og er prentaður hér sem fylgiskjal með henni þannig að hægt er að kynna sér hann í þingskjalinu.

Líkt og ég gat einnig um þá er þetta ekki í fyrsta sinn sem þessi þingsályktunartillaga kemur fram. Hún hefur verið send til umsagnar og árið 2017 barst umsögn frá utanríkisráðuneytinu þar sem kemur fram að ráðuneytið telji eðlilegt að neytendur séu almennt upplýstir um uppruna vara. Það eigi einnig við um vörur sem eru framleiddar á hernumdum svæðum Palestínu og þess vegna þurfi að merkja þær með viðeigandi hætti. Þá er jafnframt fjallað um það að landtökubyggðir Ísraela á hernumdum svæðum Palestínu brjóti í bága við alþjóðalög og alþjóðleg mannréttindalög. Að auki séu landtökubyggðirnar á svæðum sem ekki er viðurkennt alþjóðlega að tilheyri Ísrael. Raunar hefur Alþingi Íslendinga með ákvörðun frá árinu 2011 viðurkennt sjálfstæði og fullveldi Palestínu á því landsvæði. Fríverslunarsamningur EFTA-ríkja við Ísrael tekur einungis til landsvæða innan viðurkenndra landamæra Ísraels, svo það sé skýrt tekið fram, en ekki landtökubyggðanna.

Það er einnig í þessari umsögn ráðuneytisins vikið að því að reynt sé að gera Palestínumönnum kleift að nýta sér kosti bráðabirgðasamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA og Frelsissamtaka Palestínu, PLO, fyrir hönd þjóðarráðs Palestínu. Tekið er fram að Palestína hefur um árabil verið stærsti styrkþegi úr samstarfssjóði EFTA-ríkjanna. Það rennir aftur stoðum undir að viðskiptahliðin á því máli hafi ekki gengið nógu vel.

Það kom sem sagt þessi jákvæða umsögn frá utanríkisráðuneytinu og raunar fleiri samtökum sem ég ætla ekki að rekja í þessari ræðu. Ég tel að það skipti máli að fyrir liggi við umfjöllun um þetta mál að umsögnin hafi komið fram um málið þegar það var flutt á 146. löggjafarþingi.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð að sinni. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu gangi málið til hv. utanríkismálanefndar og síðari umr. Ég vonast auðvitað til þess að það verði á endanum samþykkt.