149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

um fundarstjórn.

[17:19]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Í umræðuþættinum Þingvöllum í gær, þar sem þátttakendur voru prófessorar í siðfræði, mannréttindalögfræðingur og fæðingarlæknir, kom vel fram að þetta mál er mjög vanreifað, sjálft fóstrið er ekki nálægt í frumvarpinu og engin samfélagsumræða hefur farið fram um það í raun og veru. Fram kom hvatning um að þingmenn tækju sér meiri tíma til að gaumgæfa málið, líkt og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands hefur lagt til, sem og Þroskahjálp og biskup Íslands. Hér er gengið lengra en annars staðar á Norðurlöndum og búið til nýyrðið þungunarrof til að forðast tilfinningatengsl við lífið, þar sem verið er að deyða.

Herra forseti. Má virkilega ekki fresta þessu máli, hugsa það og vinna það betur? Það er ekkert sem kallar á þessa flýtimeðferð. Ég skora á hæstv. forseta að fresta málinu. Það er ekki hægt að halda því til streitu í ósætti við stóran hluta þjóðarinnar.