149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við erum hér með í höndunum gríðarlega viðkvæmt mál en um leið mikilvægt og þess vegna skipti miklu máli að vinna við að skoða framkvæmd þessara mála á Íslandi færi af stað á sínum tíma. Það tók tíma að koma málinu til þingsins og ég átti satt best að segja von á því að þingið gæfi sér betri tíma til að gaumgæfa öll þau ólíku sjónarmið sem þarf að hafa í huga. Mér finnst að við sérhverju álitamáli sem hefur komið upp, sérstaklega varðandi viðmiðunartímann í þessu efni, hafi svarið alltaf verið: Kvenfrelsi. Mér finnst kvenfrelsið skipta gríðarlega miklu máli og það á að vera meginþráður í meðferð þessara mála en mér finnst samt kvenfrelsi ekki trompa hvert einasta annað álitamál sem upp kemur í þessum efnum.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér þykir þetta nefndarálit tiltölulega léttvægt í ofboðslega stóru, þungu og mikilvægu máli og skautað yfir gríðarlega viðkvæm og erfið mál með örfáum setningum, (Forseti hringir.) t.d. um að það sé svo erfitt að lista upp atriðin sem geti réttlætt inngrip seint á meðgöngunni og þess vegna er því bara sleppt. Það eru mér mikil vonbrigði.