149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:51]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég kem hér upp til að árétta gagnvart öllum þeim hv. þingmönnum sem halda því fram að hér hafi hin eða þessi atvik í þessu máli ekki verið rædd, hin eða þessi álitaefni ekki verið rædd í samfélaginu eða í þjóðfélaginu, að það er bara alls ekki rétt. Ég ætla að endurtaka það. Margir þessara hv. þingmanna hafa kosið að taka svo gott sem engan þátt í umræðum um þetta mál á meðan það var í meðferð þingsins.

Sömuleiðis þykir mér holur hljómur í því hjá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem tala hér um að þingið hefði átt að taka sér lengri tíma í þetta mál, ef við miðum það við önnur stór, mjög umdeild mál sem hv. Sjálfstæðisflokkur hefur komið í gegnum þingið á miklu meiri hraða og miklu styttri tíma í ríkisstjórnartíð sinni en raunin er með þetta mál. Má þar nefna veiðigjaldafrumvarpið eða skipun dómara í Landsrétt. En þegar kemur að sjálfsákvörðunarrétti kvenna yfir eigin líkama þá þurfa þeir meiri umhugsunartíma. (Forseti hringir.) Við leggjum kannski ólíkt mat á hvað þarf góða og vandaða meðferð þingsins og hvað það telst vera.