149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:08]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir þessu sama og hv. þm. Halldóra Mogensen áðan, að hér koma margir karlþingmenn og lýsa því yfir að þeir virði að sjálfsögðu sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama um leið og þeir bera í rauninni brigður á þennan sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama vegna þess að þungunin fer fram í þessum líkama. Það er enginn annar líkami sem er þungaður og þess vegna er bara um þennan eina líkama að ræða. Það er allt í lagi að viðurkenna að við erum hér inni ósammála um það hvort virða beri sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama og að ekki muni nást nein sátt um það.

Ég get sagt fyrir sjálfan mig að ég styð þennan sjálfsákvörðunarrétt og þess vegna styð ég þetta frumvarp.