149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:27]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Ég segi já, hæstv. forseti, vegna þess að þetta er gríðarlega mikið framfaraskref sem búið er að bíða eftir lengi. Það að hlusta hér á miðaldra karlmenn ætla að skammta konum úr hnefa réttindi er óþolandi. (Gripið fram í: Hvaða fordómar eru þetta?) [Hlátur í þingsal.]

(Forseti (SJS): Forseti biður um hljóð, bæði í salnum og á pöllum.)

Líklega sambærilegir og karlar bera gagnvart konum og þeirra ákvörðunarrétti. Að treysta ekki konum til þess að taka skynsamlega ákvörðun. Ákvörðunin sem slík, eins og þessi, er aldrei tekin af neinni léttúð. Hér hefur verið látið liggja að því að þungunarrof verði bara hér á færibandi. Það er bara ekki þannig.

En ég kom hingað upp og ætlaði að þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir að hafa sett málið af stað á sínum tíma með því að óska eftir þessari skýrslu. Ég ætla að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að hafa kjark og þor til þess að leggja þetta mál fram og ekki síst velferðarnefnd og hv. formanni hennar fyrir að vinna þetta mál á allan þann hátt sem búið er að tiltaka hér í þessum sal. Við eigum ekki að skerða rétt kvenna til (Forseti hringir.) sjálfsákvörðunar eins og hér hefur ítrekað verið lagt til, því miður. Ég segi já.