149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

826. mál
[20:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum nokkrar úttektir á beinum framlögum ríkisins til endurreisnar innlenda fjármálakerfisins. Það sem ríkið lagði fram og tók á sig til fjármögnunar hefur verið reiknað út og menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að við séum búin að endurheimta og ágætlega rúmlega það allan beinan kostnað ríkisins. Nú skal ég ekki fullyrða um það hvaða undirliggjandi ávöxtunarkrafa var gerð í þeim útreikningum, ég bara man það hreinlega ekki, eða hversu hátt áhættuálag ætti að vera, en ég tel að niðurstaðan standi vel undir einhverjum vöxtum og mögulega áhættuálagi því til viðbótar.

Þetta er staða sem er til komin m.a. vegna þess að ríkið fjármagnaði Landsbankann, tók síðan yfir viðbótarhlut í bankanum þegar skuldabréfið sem gefið hafði verið út var upp greitt og Landsbankinn hefur greitt yfir 100 milljarða í arð frá þessum tíma. Hinir bankarnir hafa sömuleiðis skilað arði til ríkisins en eins og menn muna þá tók ríkið við stöðugleikaframlögum sem skipta einna mestu máli í þessari heildarmynd og þar inni var Íslandsbanki. Menn verða að gefa sér ákveðnar forsendur um virði þessara eigna þegar þeir reikna þessa hluti. Ég tel að þetta liggi fyrir.

Svo vil ég bæta því við hér undir lokin að við megum ekki gleyma því þegar við erum að aflétta sköttum að við eigum enn þá tvo stærstu bankana og ég tel algjörlega óumdeilt að þeir hækki í virði. Það væri meira að segja fróðlegt hér í nefndarstarfi að láta reikna fyrir sig, (Forseti hringir.) fá kannski Bankasýsluna til að hafa skoðun á því, hversu mikið bankarnir hækka í virði við það eitt að vera lausir undan skattinum.