149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

matvæli.

753. mál
[20:11]
Horfa

Flm. (Gunnar Bragi Sveinsson) (M):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um matvæli, nr. 93/1995, með síðari breytingum, sýklalyfjanotkun. Flutningsmenn málsins eru þingmenn Miðflokksins.

Málið er í sjálfu sér ekki gríðarlega flókið. Frumvarpið er svohljóðandi:

„1. gr.

Á eftir 15. gr. laganna“ — þ.e. laga nr. 93/1995 — „kemur ný grein er verður 15. gr. a, svohljóðandi:

Fyrirtæki sem hafa með höndum smásölu matvæla skulu tryggja með merkingum í sölurýmum að neytendur hafi greiðan aðgang að upplýsingum um upprunaland matvælanna og meðalnotkun sýklalyfja við framleiðslu matvæla í viðkomandi landi. Matvælastofnun skal gefa út árlegar leiðbeiningar um miðlun upplýsinga um sýklalyfjanotkun við framleiðslu matvæla.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Greinargerðin hljóðar svo:

Markmið frumvarpsins er að bæta miðlun upplýsinga um sýklalyfjanotkun við framleiðslu matvæla til neytenda. Með þessu er tryggt að neytendur séu upplýstir um meðalnotkun sýklalyfja við framleiðslu matvæla í upprunalandi þeirra matvæla sem boðin eru til sölu í matvöruverslunum og geti byggt ákvarðanir sínar um val á matvöru á þeim upplýsingum.

Í byrjun árs 2017 birti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) lista yfir sýklalyfjaónæmar bakteríur þar sem stofnunin flokkaði tólf ættir baktería eftir áhættuflokkum. Haustið 2019 varaði stofnunin við að jarðarbúar væru að verða uppiskroppa með nothæf sýklalyf og hvatti til þróunar nýrra lyfja. Aðalframkvæmdastjóri stofnunarinnar, dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus, lýsti því yfir 20. september 2017 að neyðarástand væri að skapast í meðhöndlun sjúklinga vegna sýklalyfjaónæmis. Þá kemur fram í nýrri skýrslu Evrópusambandsins frá því í febrúar 2019 að aukið ónæmi gegn sýklalyfjum stofni í hættu hefðbundinni meðferð við lekanda, sem er næstalgengasti kynsjúkdómur innan EES-svæðisins. Í skýrslu sem unnin var í Bretlandi um aðgerðir gegn sýklalyfjaónæmum bakteríum kemur fram að um 700.000 manns láti lífið á hverju ári af völdum slíkra baktería.

12. apríl 2017 skilaði starfshópur sem heilbrigðisráðherra skipaði greinargerð um aðgerðir til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi. Í greinargerðinni kemur m.a. fram að sýklalyfjanotkun í dýrum hér á landi hefur verið ein sú lægsta á heimsvísu. Þá hafi algengi sýklalyfjaónæmis hér á landi verið umtalsvert lægra en í nágrannalöndum. Í greinargerð starfshópsins og í bresku skýrslunni er fjallað um mikilvægi þess að auka meðvitund almennings um hættuna sem fylgir ofnotkun sýklalyfja. Þá er í greinargerð starfshópsins lagt til að innleidd verði stefna um skynsamlega notkun sýklalyfja í dýrum, m.a. verði gefnar út leiðbeiningar um skynsamlega notkun þeirra. Þótt mikið hafi verið fjallað um notkun sýklalyfja og hættuna sem fylgir sýklalyfjaónæmum bakteríum hefur heildstæða stefnu vantað.

Lyfjastofnun Evrópu gefur árlega út skýrslu um sölu sýklalyfja sem ætluð eru dýrum í 30 ríkjum Evrópu. Í þeirri skýrslu má finna upplýsingar um notkun sýklalyfja í helstu innflutningsríkjum Íslands. Nauðsynlegt er að auka vitund almennings um efni skýrslunnar enda hefur skort mikið á miðlun upplýsinga til almennings um notkun sýklalyfja við framleiðslu matvæla. Hafi almenningur greiðan aðgang að þessum upplýsingum í sölurýmum verslana geta neytendur tekið ákvörðun um frá hvaða ríkjum þeir kaupa matvæli á grundvelli opinberra upplýsinga um notkun sýklalyfja í matvælaframleiðslu.

Virðulegi forseti. Þessi greinargerð skýrir, held ég, nægjanlega hvað vakir fyrir flutningsmönnum frumvarpsins. Það er fyrst og fremst að auka vitund almennings og miðla til almennings upplýsingum um þá vöru sem þeim stendur til boða. Fullyrða má að það hafi verið þörf á þessu en ekki síst núna þegar ljóst er að fyrirvarar sem Ísland taldi sig hafa varðandi það að þurfa ekki að heimila innflutning á hráu, ófrosnu kjöti virðast ekki hafa dugað á sínum tíma. Þá er ekki síst mikilvægt núna að auka fræðslu til almennings um muninn á þeim vörum sem í boði eru. Að sjálfsögðu þarf ekki að taka fram að íslenskar vörur eru ekki undanskildar því að vera með í þessum upplýsingum, og eru það reyndar nú þegar í dag í þessum skýrslum Evrópusambandsins.

Þetta leiðir kannski umræðuna aðeins að því, virðulegi forseti, að við þurfum að horfa heildstætt á það hvernig við getum miðlað upplýsingum til neytenda. Fyrir utan það má nefna að hugsanlegt gæti verið að gera enn þá skýrari þær merkingar sem eru á matvælum í dag, þ.e. upprunamerkingar. Í dag þarf að leita að því ef fólk vill sjá hvort varan sé upprunamerkt íslensk, þýsk, dönsk eða hvaðeina. Þetta mætti gera augljósara með því að hafa t.d. rauðan grunn og gult letur eða eitthvað slíkt þannig að fólk gæti séð það og að sjálfsögðu myndi þetta líka gilda um íslenskar vörur.

Síðan mætti hugsa sér að skylda þá sem selja þessar vörur að öll upprunakeðjan sé sett á pakkningarnar, þ.e. hvar dýrið er alið, slátrað, unnið o.s.frv. Ekki eingöngu slátrunar- eða framleiðslustaðinn. Það er líka nauðsynlegt að horfa til þess hvort við eigum ekki að gera átak í því, og um það hefur verið flutt þingmál, að kortleggja kolefnisspor þeirrar vöru sem við neytum og birta upplýsingar um t.d. matvæli í verslunum, um kolefnisspor viðkomandi matvæla, hver þau eru. Við getum séð fyrir okkur grænmeti, að kolefnisspor af grænmeti á Suðurlandinu versus kolefnisspor grænmetis sem flutt er frá Afríku eða einhvers staðar frá Evrópu, mismunur gæti verið þar á og ef til vill vilja neytendur kaupa vöru þar sem þetta skiptir máli.

Þá má líka nefna að merkja íslenskar vörur með íslenska fánanum. Nú er það, ég held að ég fari rétt með, valkvætt. Og hugsanlega mætti kveða sterkar að orði að það skuli vera skylda með einhverjum hætti. Ég er ekki að leggja það til hér en vildi kasta þessu upp, en það er kannski svolítið bratt.

Að lokum, forseti, tel ég að líka megi velta því upp hvort við viljum að upplýst sé um hvers konar bú standi að baki vörunni. Hvort nautakjötið sem við kaupum í verslunum komi úr einhverju risastóru verksmiðjubúi þar sem gripirnir eru aldir við ákveðnar aðstæður eða af litlu fjölskyldubúi á Íslandi. Það getur líka skipt máli þegar menn velja sér hvað þeir kaupa í matinn. Í það minnsta er mikilvægt að byrja ferlið á að upplýsa neytendur um þetta og frumvarpið er liður í því.