149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

barnaverndarlög.

126. mál
[20:54]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Við hv. þm. Brynjar Níelsson höfum áður rætt svipað frumvarp og hann leggur fyrir þetta þing, reyndar á öðru kjörtímabili, ef ég man rétt. En spurningar mínar til hv. þingmanns eru að mörgu leyti af algerlega sama meiði og þær voru þá, vegna þess að þótt frumvarpið hafi vissulega tekið breytingum hefur það ekki tekið breytingum að því marki sem snýr að því sem ég les út úr frumvarpi hv. þingmanns, snýr að rétti foreldra, þ.e. rétti barna til að umgangast báða foreldra sína, sem ég tek heils hugar undir.

En frumvarpinu nú, rétt eins og þá, tekst ekki að útskýra hvernig það aðstoði umgengnisrétt barna við foreldra sína að setja annað þeirra í fangelsi fyrir tálmun. Mér finnst það vera þversögn og mótsögn í sjálfu sér að ef annað foreldri tálmar aðgengi hins sé rétta lausnin að fangelsa það foreldrið og þar með tálma aðgengi barnsins að því foreldri — af hálfu ríkisvaldsins.

Ég einbeiti mér kannski í fyrra andsvari að því hvers vegna hv. þingmanni finnst ekki tilefni til að skoða aðrar lausnir og hvort honum finnist ekki ákveðin mótsögn í því falin að tala um umgengnisrétt barna við báða foreldra en ætla svo að beita ríkisvaldinu til að takmarka umgengnisrétt við annað foreldrið.