149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

barnaverndarlög.

126. mál
[21:04]
Horfa

Flm. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka nú þetta andsvar. Þetta var svolítið hlýlegt andsvar sem ég er nú ekki vanur að fá. (IngS: Þú veist bara ekki hvernig þú átt að haga þér?) Nei, þá veit maður ekki hvernig maður á að haga sér.

Hv. þingmaður nefnir refsirammann. Hann truflar marga. En þetta er bara sami refsirammi og er í barnaverndarlögunum. Ef einhver beitir barn andlegu ofbeldi, eins og þetta er auðvitað, getur það haft verulega slæm áhrif. Þess vegna er refsiramminn svona, eins og í öllum öðrum málum. Þessi sami refsirammi er í brotum sem eru að mínu viti miklu vægari.

Þannig að ástæðan fyrir að hann er með þessum hætti er einfaldlega bara svo þetta stingi ekki í stúf við lögin sjálf. Það er eina ástæðan fyrir að hann er sá sami.

En auðvitað þýðir þetta ekki að fólk fari í fangelsi við fyrsta brot. Það gerist ekki þannig. Og það vita allir sem vinna í þessu. En ef það verða einhverjar ítrekanir, aftur og aftur, kann að koma til einhverrar refsivistar að lokum, því menn láta sér þá ekki segjast, þrátt fyrir ítrekuð brot. Það er bara eins og í öllum öðrum brotaflokkum — sem ég tel vera miklu vægari brot. Það getur þýtt refsivist.

En auðvitað kann að vera, eins og hv. þm. Helga Vala segir, að það þurfi kannski að skoða allt kerfið. Ég ætla ekki að andmæla því. Ég hef áhyggjur af getuleysi í því — og dugleysi aðallega. En ég held að þetta hafi mjög mikið forvarnagildi (Forseti hringir.) og verði til þess að misnotkun af þessu tagi eigi sér ekki stað.