149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

barnaverndarlög.

126. mál
[21:07]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér aftur frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum. Því að aftur leggur hv. þm. Brynjar Níelsson fram forgangsmál sitt, og um leið forgangsmál þingflokks Sjálfstæðisflokksins, á stórum kvenréttindadegi hér í þinginu. En kannski má segja að það sé frekar lítill dagur fyrir þingflokk Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að kvenréttindum, því miður.

Aftur leggur hv. þingmaður fram þetta umdeilda frumvarp sitt um að gera það refsivert að tálma umgengni, og ekki bara refsivert heldur geti það varðað fangelsi allt að fimm árum. Hér á undan mér talaði hv. þm. Inga Sæland um að þetta væri flott frumvarp. Ég er aldeilis ekki sammála því að þetta sé flott frumvarp. Mér finnst þetta ákaflega dapurlegt frumvarp að öllu leyti og mjög vanhugsað þó að hv. þingmaður hafi gert á því nokkrar breytingar frá því að hann lagði það fram síðast. Sér í lagi er það vanhugsað út frá hagsmunum barna, enda er það ekki til þess fallið að vernda réttindi barna í forsjár- og umgengnismálum heldur til þess að standa eingöngu vörð um réttindi foreldra og um réttindi ákveðins hóps foreldra.

Til að minna bæði hv. þingmann og aðra á þá er það skýrt leiðarstef í barnarétti í íslenskum lögum að gera aðeins það sem barninu er fyrir bestu, ekki foreldrunum heldur barninu. Fyrir það fyrsta er í frumvarpi hv. þingmanns ekki að finna ígrundaða skilgreiningu á hugtakinu tálmun, heldur er þar reynt með einhverjum hætti að skýra það í greinargerðinni með frumvarpinu. Að auki er bætt við hugtakinu takmörkun, sem er heldur ekki skýrt að neinu ráði í því frumvarpi sem við ræðum nú.

Að vísu er ekki að finna greinargóða skilgreiningu á tálmun í neinum lögum, hvorki í barnaverndarlögum né í öðrum lögum. Hvorki nú né fyrr er að finna einhverja greinargóðar skilgreiningar á tálmun eða rannsóknir á tálmun eða takmörkunum, heldur er eingöngu vísað í tölur sem eru tveggja ára gamlar. Það eru ágætistölur. Ég kem þeim síðar.

Það má því segja að forsendur fyrir frumvarpinu séu af afar skornum skammti og vekur hjá mér furðu nú eins og þegar við ræddum frumvarp hv. þingmannsins hér síðast. Þessi tilraun til að skýra út tálmunarhugtakið finnst mér vera veik og sömuleiðis algjör skortur á útskýringu á hugtakinu takmörkun.

Við höfum nú þegar neyðarúrræði í barnaverndarlögunum sem kallast aðfarargerð sem felst í því að ef foreldri sem barn býr hjá heldur áfram að hindra umgengni, þrátt fyrir úrskurð um dagsektir og fjárnám fyrir ógreiddum dagsektum, getur dómari, að kröfu þess sem á rétt á umgengni við barn, heimilað að umgengni verði komið á með aðfarargerð. Það þýðir að heimilt er að barn sé tekið úr umsjá foreldris sem það býr hjá og fært umgengnisforeldri í eitt skipti eða fleiri. Eins og hv. þingmaður vitnar til í greinargerð sinni voru þau skipti sem gripið var til þessa neyðarúrræðis afar fá, alls níu skipti á tíu ára tímabili, frá 2007 til 2016.

Því miður er það svo að sum af þessum skiptum snúast ítrekað um sömu börn og sömu foreldra, sem er auðvitað afar sorglegt. Með þessari tölu er það staðfest að þetta hámarksinngrip yfirvalda vegna umgengni við hitt foreldrið á sér stað í örfá skipti, sem betur fer. Yfirgnæfandi hluti umgengnismála er nefnilega blessunarlega til lykta leiddur og umgengni er komið á án þess að dagsektarmál séu opnuð. Þetta minnir hv. fyrsti flutningsmaður á í greinargerð sinni. Örfá mál enda með dagsektum og alger undantekningartilfelli fer fram aðför þar sem barnið er sótt með valdi samkvæmt dómsúrskurði.

Því miður eru harðar umgengnisdeilur til staðar, en sem betur fer eru þær miklu fátíðari en hin einsleita umræða um umgengnismál gefur til kynna. Sú umræða fer afskaplega oft fram í fjölmiðlum með aðeins annarri hlið mála. Það er miður, sérstaklega fyrir þau börn sem eiga hlut að máli. Sú umræða og umfjöllun fjölmiðla endurspeglar heldur ekki raunveruleikann í kerfinu, hjá stofnunum og því starfsfólki sem vinnur með þennan viðkvæma málaflokk. Eins og ég benti á áðan eru nú þegar til staðar tæki og tól sem hægt er að beita í erfiðum umgengnismálum.

Ég velti því fyrir mér hvers vegna lagt er til að gerðar séu breytingar á barnaverndarlögum þegar til staðar eru tæki og tól til að glíma við þessi erfiðu mál. Það er þá líka svolítið í mótsögn við það sem hv. þingmaður hefur sagt, að honum finnist það mjög bagalegt að börn missi af því að umgangast og sjá annað foreldrið, þegar hann leggur fram frumvarp til laga um að annað foreldrið fari í fangelsi í fimm ár. Það er vægast sagt mótsagnakennt og algerlega með ólíkindum.

En fimm ára fangelsisrefsing. Hv. þm. Inga Sæland benti á að þrátt fyrir að henni fyndist þetta vera flott frumvarp væri refsiramminn ansi hár. Jú, hann er hár. Samanborið við önnur refsiverð brot er þessi fimm ára refsirammi í takt við 98. gr. barnaverndarlaga, sem taka til alvarlegustu brotanna gegn börnum. Ofbeldisbrota, andlegra brota og jafnvel kynferðislegs og líkamlegs ofbeldis. Með þessu frumvarpi er í raun og veru verið að leggja til að tálmun, sem er óútskýrð í frumvarpinu, jafnist á við þau allra verstu brot sem við vitum því miður af í samfélagi okkar gegn börnum. Það þykir mér, herra forseti, vægast sagt undarlegt.

Hvað er best fyrir börn í þessari stöðu? Eru það ekki friðsamleg samskipti, stöðugleiki og jafnvægi foreldra á milli? Er það ekki einhvers konar sáttameðferð? Hefði ekki verið betra af hv. þingmanni að leggja til að mynda fram frumvarp til laga um aukið fjármagn til sýslumannsembættanna til að vinna á þeirri löngu bið sem foreldrar, sem standa í skilnaði og þurfa að útkljá um sín mál, þurfa að þola eftir því að sýslumannsembættin hjálpi þeim og aðstoði þau við að útkljá umgengnismál sín á milli.

Meðalbiðtími sýslumannsembættisins í Reykjavík er því miður enn þá hæstur á landinu. Það vill nú svo til að það er kjördæmi hv. þingmanns sem um ræðir þannig að það hefði kannski verið ágætt hjá hv. þingmanni að leggja fram frumvarp um aukið fjármagn til að stytta þennan biðtíma, sem getur verið samkvæmt nýjustu tölum 14–17 mánuðir — 14–17 mánuðir þar sem fólk er að bíða eftir úrlausn sinna mála þegar kemur að umgengnissamningnum. Það skiptir gríðarlega miklu máli, hv. þingmaður, af því að fólk þarf að bíða í meira en ár eftir því að því sé leiðbeint og það fái sinn umgengnissamning. Það getur súrnað ansi mikið í mörgum samskiptum á þeim tíma.

Refsiákvæðið sem er að finna í þessu frumvarpi er alls ekki til þess fallið að hlúa að hagsmunum barna. Það bitnar afar illa á börnum enda hefur ekkert Norðurlandanna farið þá leið, með barnaverndarlög inn í refsirétt. Það hefur hvergi verið gert á hinum Norðurlöndunum og þó hafa þau mál verið könnuð og rannsökuð miklu ítarlegar þar en hér á landi þar sem fjölskyldu- og barnaréttur er afar sterkur á Norðurlöndunum. Það kom m.a. fram í umræðum um endurskoðun á barnaverndarlögunum 2013 að ekkert Norðurlandanna hefur farið þá leið sem hér er boðuð, að fara refsiréttarleiðina. Og það er ekkert sem bendir til að refsiákvæði á borð við fimm ára fangelsisvist stuðli að aukinni umgengni eða verndi hagsmuni barna. Engar rannsóknir eða kannanir liggja þar til grundvallar. Það frumvarp sem við ræðum núna gengur þvert gegn fjölskyldu- og barnarétti á Norðurlöndunum.

Ég er ekki sammála því sem fram kemur í frumvarpinu, að þessi viðkvæmu og flóknu mál verði sett til barnaverndaryfirvalda heldur er, eins og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir kom inn á, með því verið að fara inn á verksvið barnaverndaryfirvalda sem fjalla um barnavernd en ekki um refsingar, ekki um fangelsisrefsingar heldur barnavernd, að vernda börn. Refsingarnar eru nefnilega á borði lögreglu, ákæruvaldsins og dómstólanna, sem hv. þingmaður hefði kannski átt að vita, þar sem hann er slíkur reynslubolti í dómsmálum sem raun ber vitni.

Svo er ekki hægt að sleppa því, hv. þm. Brynjar Níelsson, að nefna kynjavinkilinn. Vegna þess að hv. þingmaður hefur í þessari umræðu, eins og síðast, komið hér upp og frábeðið sér alla umræðu um að þetta tengist á nokkurn hátt kynjavinkli. Þetta tengist honum bara þráðbeint. Hér á landi er nefnilega svo að sameiginleg forsjá langalgengasta er úrræðið við skilnað foreldra. Í sumum tilvikum heldur móðirin eingöngu forsjánni en í örfá skipti fer faðirinn með forsjá. Af 598 skilnuðum foreldra á árunum 2006–2010 voru 477 með sameiginlega forsjá, 112 mæður voru einar með forsjána á móti níu feðrum. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar frá árinu 2017. Þar kemur líka fram að fyrir tveimur árum síðan, sem eru nýjustu tölur sem ég hef fundið, bjuggu rúmlega 90% barna foreldra á Íslandi sem hafa skilið, hjá mæðrum sínum.

Þess vegna er fullkomlega ljóst að þessu frumvarpi er beint sérstaklega gagnvart mæðrum vegna þess að þær fara með forsjá barna þegar forsjáin fellur hjá öðru foreldrinu. Tölulegar vísbendingar, tölulegar sannanir sýna það. Hvað finnst okkur um það? Hvað finnst okkur um að hér sé komið fram frumvarp sem beint er gegn mæðrum á þessum degi? Hvað finnst okkur um það? Ég veit alveg hvað mér finnst um það, en það væri ágætt að heyra fleiri skoðanir um það en mína.

Eins og einhverjir hafa bent á hér þurfum við að fjalla um umgengnis- og forræðismál á heildstæðari hátt en gert er í þessu frumvarpi. Við þurfum að leggja miklu meiri áherslu á sáttameðferð fyrr í ferlinu og markvissa sálfræðiráðgjöf eða fjölskylduráðgjöf fyrir foreldra sem skilja að skiptum. Við þurfum að styrkja sýslumannsembættin í þeim hluta sem snýst um sifjamálin og eru á þeirra verksviði. Við þurfum að tryggja fjármagn til að stytta verulega afgreiðslutíma hjá embættum sýslumanna vegna úrskurða um umgengni. En eins og ég nefndi áðan er hér gríðarlega langur biðtími eftir því að fá úrskurð um umgengnissamning. (Gripið fram í.) Það væri miklu meira hagsmunamál fyrir börn foreldra sem skilja, miklu meira, en að varpa öðru foreldri þeirra í fangelsi. Af því að þessi langi biðtími, sem er óviðunandi fyrir alla, ekki síst börnin, er mjög erfiður.

Lausnin er sú að ljúka málum í sem mestri sátt. Það er nú einu sinni svo að þegar fólk skilur að skiptum er það ekki vegna þess að allir séu ánægðir eða sáttir. Ég held að við getum fullyrt það hér að yfirvöldum beri að leita allra leiða til þess að aðstoða foreldra sem eru að ganga í gegnum skilnað með börn, við að ná sáttum um umgengni, af því að það er börnunum fyrir bestu. Það er mikilvægt að hafa þann skýrleika. Rannsóknir sýna að mörg þeirra barna þar sem foreldrarnir skilja, eru undir ofurálagi vegna deilna foreldra, refsimála og umgengnismála. Harðvítugar og langvarandi forræðisdeilur og umgengnisdeilur hafa markandi áhrif á börn sem eru fyrir vikið undir ótrúlega miklu og stöðugu álagi, berjast við kvíða og sum geta ekkert leitað eftir stuðningi.

Það hefði verið virkilega ánægjulegt að sjá hv. þm. Brynjar Níelsson leggja hér fram þingmál sem hefði það að markmiði að skoða heildrænt réttindi barna sem þurfa að upplifa umgengnis- og forræðismál foreldra sinna og hvernig hægt væri að bæta þau mál og þann feril mála.