149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

barnaverndarlög.

126. mál
[21:34]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég hefði kannski búist við og hefði líka viljað sjá að hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kæmi fram með eitthvert frumvarp sem væri heildstæðari lausn þessara mála, til að flýta fyrir og styrkja þá foreldra sem standa í þessum erfiðu sporum. Með það að tilgangi og meginmarkmiði að huga að velferð barna sem um ræðir. Við vitum að umgengnismál og skilnaðir koma oft og tíðum mjög illa við börn, hvað þá þegar um átök og deilur er að ræða. Börn lenda í hollustuklemmu. Þau upplifa kvíða, þurfa oft að taka afstöðu og eru sett í þá stöðu, því miður.

Varðandi seinni spurninguna, sem var ... Fyrirgefðu, herra forseti, ég biðst afsökunar, ég náði ekki alveg seinni spurningunni. (BHar: Að þú teljir að þetta sé forgangsmál Sjálfstæðisflokksins.)Já, það er bara röðunin á dagskránni í þingmannamálunum sem fær mig til að draga þá ályktun.

En ég er, að ég held, búin að svara því sem hv. þingmaður velti því fyrir sér varðandi hvort þetta væri kvenréttindamál. Ég tel svo vera og er búin að útskýra það hér í andsvörum og í ræðu minni og hef þar tölur til að styðja mitt mál.

En eins og ég segi hef ég líka talað um það hér í ræðu minni og sömuleiðis þegar málið var flutt í fyrra skiptið á 146. þingi að ég mundi gjarnan viljað sjá heildstæðari tillögu að lausn inni á þinginu og hún hefur komið fram. Mig minnir að hv. þm. Björn Leví Gunnarsson sé með þingsályktunartillögu (Forseti hringir.) um að stytta þennan biðtíma hjá (Forseti hringir.) sýslumannsembættunum. Ég held að það sé hið allra besta mál og mundi styðja það.