149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

barnaverndarlög.

126. mál
[22:31]
Horfa

Flm. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Barnavernd hefur ekki heimild til þess? Í þessu frumvarpi er verið að gera ákveðna háttsemi að broti, broti á barnaverndarlögum. Þá hefur barnavernd auðvitað allar heimildir, alveg eins og í öðrum brotum. Hvað getur verið svona flókið við það? (Gripið fram í: Ekki nema tálmun sé skilgreind sem …) Nei, ég er að segja það: Tálmun er skilgreind með ákveðnum hætti í þessu. Ef barnavernd telur hana vera brot á því nýja ákvæði sem verður að lögum, vonandi, hefur hún að sjálfsögðu allar heimildir. Þetta er ekki flókið, hv. þingmaður.

Málið snýst ekkert um sáttameðferð um það, þótt ég efist ekki um að barnavernd muni segja: Heyrðu, þú átt kost á að láta af þessu áður en þetta mál fer lengra — eins og alltaf þegar er um brot að ræða. Það er reynt að lægja öldurnar, reynt að ná niðurstöðu svo að ekki þurfi að fara í mikla sakamálameðferð. Það er ekkert að því. Málið snýst bara um það að hér er ákveðin háttsemi gerð refsiverð á skýran hátt, brot gegn barni. Þegar búið er að gera það í barnaverndarlögum er komin refsiheimild og þá þarf ekkert að fara í einhverja sáttameðferð. Brotið er þá annaðhvort fullframið eða það er ekki brot. Þannig lærði ég lögfræði, hv. þm. Helga Vala Helgadóttir. Ég veit ekki hvernig þú lærðir hana. Mig minnir að ég hafi samt getað kennt þér í henni. (HVH: Já, gott ef ekki.)