149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[16:16]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni kærlega fyrir ræðuna. Komið hefur fram í umræðunum hér fyrr í dag hjá nefndarmönnum, sem ég held að einir hafi haldið ræður hingað til, að lögð hefði verið sú lína, að því er virðist, að sleppa mörgu, fara ekki inn í „díteila“ í hlutum og þar fram eftir götunum. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að tilfinning mín er sú að plaggið sé hálfgert þunnildi eins og það liggur fyrir núna.

Ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa upp eina málsgrein í þingsályktunartillögunni sem er nr. 8 í 4. lið, þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Veitendur heilbrigðisþjónustu hafi skilning á þörfum og markmiðum þeirra einstaklinga sem til þeirra leita og einbeiti sér að því að veita þjónustu sem mæti þessum þörfum og markmiðum.“

Þetta er náttúrlega bara froða, ekkert annað. Það þarf ekkert að setja þetta í þingsályktun. Þetta er bara það sem fólk gerir dagsdaglega í störfum sínum og samskiptum. En látum það nú vera.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann um, til viðbótar við það að gagnrýna að ekki hafi verið tekið með ákveðnari hætti á ýmsum efnisatriðum, er að í plagginu í heild sinni sé ég mjög lítið minnst á samstarf við einkaaðila. Það eina sem ég finn er 1. liður í 5. kafla, um skilvirk þjónustukaup, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Sjúkratryggingar Íslands annist alla samningagerð um kaup á heilbrigðisþjónustu fyrir hönd ríkisins, hvort sem um er að ræða þjónustu opinberra aðila eða einkaaðila.“

Víðar hef ég ekki fundið þetta. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki eins vel lesinn í meirihlutaálitinu og ég er í þingsályktunartillögunni. En þetta er mikið deilumál, eins og við þekkjum, umræða um liðskiptaaðgerðir sem framkvæmdar eru í Svíþjóð fyrir þrefaldan þann kostnað sem kostar að framkvæma þær hér heima og þar fram eftir götunum. (Forseti hringir.) Mér þykir því mjög snautlegt ef algjörlega er skautað fram hjá samtali við einkageirann og samskipti við hann í heilbrigðisstefnu.