149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[16:19]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að segja að við fjölluðum nú ekki um hvern einasta lið tillögunnar. En varðandi fyrri spurninguna þá verður að fjalla um allan liðinn í heildarsamhengi. Hv. þingmaður las hann ekki upp. Þar er fjallað um þau gögn sem þurfa að vera til staðar og þau úrræði sem þurfa að vera svo almenningur geti tekið þátt og geti borið ábyrgð á sjálfum sér við að viðhalda heilsu sinni.

Hvað er það sem er óheilsusamlegt? Hvaða upplýsingar og rannsóknir og þróun vitum við um? Þeir sem veita heilbrigðisþjónustu þurfa að vera virkir í að miðla þessum upplýsingum og vera meðvitaðir um hvaða úrræði eru í boði í forvörnum og lýðheilsu svo almenningur geti borið svolitla ábyrgð á sjálfum sér og hjálpað okkur við að efla heilsu þjóðarinnar þannig að við þurfum ekki að skaffa það allt sjálf.

Allt í þeim mælikvarða sem við tölum hér um miðar að því að veita upplýsingar á sem hagkvæmastan hátt, á sem öruggastan hátt og tryggja framþróun. Mikið er talað um það í nefndaráliti meiri hlutans hvernig hægt sé að veita þessa þjónustu og kemur meira að segja fram að annars stigs þjónusta sé veitt í sífellt meira mæli af hálfu einkaaðila og sjálfstæðra sérfræðinga.

Við komum sérstaklega inn á það að þessi þjónusta á ekki bara að byggjast upp á Landspítalanum. Það er mikilvægt að hún fái að þróast úti á sjúkrahúsunum, hjá sjálfstæðum sérfræðingum og félagasamtökum, þriðju aðilum og öðrum, bara þeim sem hafa hugmyndir og kraft. Þeir eiga að veita þetta. Þá hlýtur framkvæmdaáætlun að taka mið af því að veita hana þar sem er, eftir stefnunni, öruggast, hagkvæmast og með besta aðgenginu.