149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:06]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. formanni utanríkismálanefndar ræðuna. Ég verð að viðurkenna að ég furða mig eilítið á þeim asa sem mér þykir gæta við meðferð þessa máls. Það er ljóst að megintillaga þeirra Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar er sú að í krafti ákvæða í EES- sáttmálanum sjálfum verði leitað eftir sáttameðferð á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Í bréfi til utanríkisráðherra hafa þeir ítrekað þá tillögu sína. Það liggur því ekki fyrir neitt lögfræðilegt álit til að mynda um þá leið sem varð ofan á, hina leiðina, sem ég leyfi mér að kalla svo. Það er ekkert lögfræðilegt álit um hana, hún hefur ekki verið prófuð eða greind. Okkur var sagt á fundi í utanríkismálanefnd af mjög virtum lögmanni að þetta væri til heimabrúks, eins og hefur verið rakið.

Spurningin er þessi: Af hverju ekki að fjalla nánar og ítarlegar um mál sem hefur svo mikla þýðingu? Eins og segir til að mynda á blaðsíðu 40 í áliti þeirra Friðriks Árna og Stefáns Más getur það valdframsal sem um er að ræða ekki talist minni háttar. Þeir líkja því, að vísu með nokkurri einföldun, við að ESA væri falið vald til að ákvarða leyfilegan hámarksafla á sviði sjávarútvegs.

Hér hafa þeir hringt viðvörunarbjöllum sem geta ekki farið fram hjá nokkrum manni. Hvað liggur á? Af hverju er þetta mál ekki rannsakað nánar og aflað lögfræðilegra álita af því tagi sem ég nefndi?