149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:11]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hinni eiginlegu spurningu var í raun og sanni ekki svarað. Af hverju er þeirra gagna sem ég nefndi ekki aflað? Sú leið sem hefur orðið fyrir valinu er algerlega óprófuð. Það liggja ekki fyrir neinar lögfræðilegar álitsgerðir um hana. Hins vegar er það frekar ódýrt, leyfi ég mér að segja, að varpa því upp að óvissa fylgi þeirri meginleið sem þeir lögðu til Þeir segja sjálfir að henni fylgi engin lagaleg óvissa. Því er alls ekki hægt að halda fram með neinum rétti að þeirri leið sem hér er ætlunin að fylgja fylgi ekki óvissa. Það er alveg morgunljóst að henni fylgir mikil lagaleg óvissa, enda er þetta ferð inn á ókortlagt svæði. Sú leið styðst ekki við neinar heimildir eða reglur í EES-samstarfinu.

Eitt í viðbót sem hefur ekki verið kannað er (Forseti hringir.) hvaða líkur eru á því að í friðsamlegu samstarfi ríkja myndi Evrópusambandið kjósa það (Forseti hringir.) að beita okkur refsiaðgerðum eða hefndaraðgerðum fyrir það eitt að leita eftir sáttameðferð á grundvelli (Forseti hringir.) ákvæða í samningnum sjálfum.