149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:52]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg fallist á að það réttlæti það ekkert og það er öllum frjálst að skipta um skoðun. Batnandi fólki er best að lifa. En ég bið þá hv. þingmann að koma hingað aftur upp í þennan ræðustól og fullyrða að málið hafi aldrei verið á borðum ríkisstjórnar hans á árunum 2013–2016.

Það er líka margt í greinargerðinni, þar sem hann talar um mögulegar afleiðingar sæstrengs. Hér er búið að girða fyrir það og það er alveg klárt og allir sammála því að hér verður aldrei lagður sæstrengur nema Alþingi komi að málum. Hv. þingmaður hlýtur þá alla vega að gangast við því að þó að hann hafi viðrað áhyggjur af því að sæstrengur gæti hugsanlega leitt til hás raforkuverðs og það þyrfti að passa það, þá vildi hann engu að síður setja á dagskrá og skoða alvarlega þann félagslega og efnahagslega ávinning sem falist gæti í slíkri framkvæmd. Hér er hv. þingmaður einfaldlega af tækifærismennsku að nota málið til að slá sér upp á því sem hann var algjörlega ósammála sjálfum sér um fyrir nokkrum árum.