149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:17]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir svarið. Það væri áhugavert að heyra hvort hv. þingmaður telji — ef ég skildi svar hans rétt er það fyrst og fremst neytendaverndin sem hann horfir til að breytist með einhverjum hætti við innleiðingu orkupakkans, frá innleiðingu til lagningar sæstrengs. Áhugavert væri að heyra hvort hann telji neytendaverndina vera sjálfstætt vandamál eins og markaðurinn liggur í dag.

En síðan langaði mig til að bæta við spurningu. Undir þessu regluverki sem við köllum þriðja orkupakkann, að ef sú staða kæmi upp að einkaaðili, einkafjárfestir — það nefnilega mikið talað um að við verðum ekki þvinguð, þá í skilningnum, við ríkið, Alþingi, ríkissjóður, menn nota mismunandi hugtök, til að leggja sæstreng — bankaði upp á hjá okkur, vildi fullfjármagna sæstreng og óskaði engrar aðkomu hins opinbera að því og vildi mögulega stinga því í samband við einhverjar vindmyllur sem hann ætti sjálfur í einhverju úthorninu. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að slík dæmisaga, ef svo má segja, spilist? Hvað uppáleggur regluverkið okkur? Hvernig myndi niðurstaða svona máls fara, eins og honum sýnist pakkinn líta út?