149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:15]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þetta tilvitnaða bréf var skrifað eftir að þeir félagar skrifa þessa álitsgerð og var þá fylgiskjal með téðri þingsályktunartillögu. Eins og ég las það er kannski verið að vísa til þess að með þessari leið er raunverulega verið að fresta stjórnskipulegum vanda. Í bili er ekki verið að, fyrirgefið íslenskuna, klæmast á stjórnarskránni, en það kemur að því að við þurfum að taka afstöðu. Nú eru samningar þannig að þá skal halda og við viljum ekki vera uppvís að öðru, Íslendingar. Við erum hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Að setja einhliða fyrirvara við slíkan samning þegar önnur leið er í boði og er hreinlega innbyggð í samninginn þegar upp koma álitaefni eins og það sem við stöndum frammi fyrir hér, sem er að gera út um þessi álitaefni innan sameiginlegu EES-nefndarinnar, þá verð ég að viðurkenna að ég skil ekki af hverju sú leið er ekki farin. Mér þætti vænt um að fá afstöðu þingmannsins til þess af hverju hún telur að sú leið sé lakari þar sem hún er innbyggð í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Í því samhengi langar mig að minnast á að þegar talað er um að vera með belti og axlabönd í þessum fyrirvörum, þá númer eitt: Af hverju eru fyrirvararnir settir? Það hlýtur að vera vegna þess að það er eitthvað sem við erum ekki alveg tilbúin að taka inn eða eitthvað sem við viljum ekki alveg fá með öllu. Til þess eru fyrirvararnir gerðir. Og af hverju er það svo? Hvað er það þarna, sérstaklega í reglugerðum 713 og 714 (Forseti hringir.) sem hræðir?