149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:40]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir mjög svo kröftuga ræðu og yfirgripsmikla. Ég tek undir með þingmanninum að það er svo margt í þessu máli að við gætum talað um það endalaust.

Ég vil byrja á því að taka undir með þingmanninum, vegna þess að það er stórt atriði í þessari umfjöllun allri saman, um stöðu Landsvirkjunar og framtíð hennar. Ég var ánægð að heyra að þingmaðurinn vill að Landsvirkjun verði áfram í eigu þjóðarinnar og ég er sammála því að það eru fáir, ef einhverjir, í þessum sal á annarri skoðun, að ég tel. Það eru að sjálfsögðu hagsmunir okkar allra að Landsvirkjun fái sem best verð fyrir orkuna.

Þingmaðurinn fór ágætlega yfir það hvað væri í pakkanum og hvað ekki og í pakkanum væru alls ekki einhverjar fyrirætlanir um einkavæðingu orkufyrirtækja og það er alls enginn vafi um stjórnarskrána í orkupakka þrjú.

Þá langar mig til að spyrja þingmanninn um verðhækkun á rafmagni. Sumir vilja halda því fram að með innleiðingu á orkupakka þrjú verði umtalsverð verðhækkun á rafmagni, Brussel fái vald yfir rafmagnstöxtum á Íslandi. Er eitthvað í orkupakka þrjú að mati þingmannsins sem gefur það til kynna?

Ég tek einnig undir með þingmanninum varðandi rangar upplýsingar. Þær eru hættulegar og eru ógn við lýðræðið. Því er það skylda okkar þingmanna, allra, sama í hvaða flokki við erum, að halda á lofti réttum upplýsingum og kynna okkur málin til hlítar og taka ákvörðun út frá réttum forsendum.