149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

nýir kjarasamningar og fjármálaáætlun.

[15:27]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Fjármála- og efnahagsráðherra. Á vefsíðu Stjórnarráðsins er fjallað um stuðning stjórnvalda við lífskjarasamningana. Þar er minnst á 45 atriði sem stjórnvöld leggja til samninganna og er vísað í skjal sem fer yfir þau atriði. Í því skjali er því miður bara að finna 38 atriði og enginn hefur getað útskýrt fyrir mér hvaða sjö atriði vantar. En það skiptir þó minna máli en það sem ég ætla að spyrja ráðherra um því að á þeim eina og hálfa mánuði síðan tilkynnt var um þennan stuðning stjórnvalda hefur ekki komið eitt orð um það hvað sá stuðningur þýðir í samhengi fjármálaáætlunarinnar sem þingið er á lokametrunum við að afgreiða.

Fjárlaganefnd veit ekki hvaða áhrif stuðningur stjórnvalda við lífskjarasamninga hefur. Aðilar vinnumarkaðarins, sem hafa komið á fund fjárlaganefndar, vita það ekki heldur. Mig langar því að spyrja ráðherra hvort hann viti það og hvenær hann ætli að láta okkur hin vita það.