149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

kostnaður við endurskoðað lífeyriskerfi.

[15:35]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Við deilum þeirri sýn að það sé mikilvægt að draga úr nýgengi örorku, eins og rakið var í fyrirspurnatíma áðan.

Þingmaðurinn spyr hvenær þessar tillögur komi til framkvæmda að fullu. Ég held að það hafi kannski komið hvað best í ljós í því samtali sem átti sér stað milli allra aðila um að það væri gríðarlega mikilvægt að vanda til verka við innleiðingu á breyttu kerfi. Þar eru atriði sem við þurfum að tryggja að við fáum breytta hugsun um inn í atvinnulífið, bæði í opinbera geiranum og á almenna markaðnum, til að geta stutt við breytt greiðslufyrirkomulag og breytt almannatryggingakerfi.

Spurt er hvenær vinnan hefjist. Lykilatriðið er að við munum núna hefja vinnu við frumvarpsgerð. Hluti af vinnu við frumvarpsgerð felst síðan í því að kostnaðarmeta endanlega hver kostnaður einstakra stofnana verður við að koma á þessum teymum o.s.frv., þar er breytt forgangsröðun.

Og svo því sé bætt við hyggst ráðherra, þegar þar að kemur, þegar sú vinna liggur fyrir, reyna að sækja það fjármagn til Alþingis. Það gefur auðvitað augaleið að fjármagnið til þess komi frá þinginu. En fram að þeim tíma verður hluti af þeirri vinnu að breyta vinnumarkaðnum, að undirbúa okkur undir þessa breyttu sýn. Ef okkur tekst ekki að vinna það hratt er til lítils að innleiða nýtt kerfi. Og það er það sem kallað var eftir í þessari vinnu. Þess vegna ætlar ríkisstjórnin, og það hefur verið boðað, að undirbúa sterka aðkomu opinbera kerfisins að því að byggja upp sveigjanleg störf, byggja upp hlutastörf í opinbera geiranum og hefja samtal við almenna markaðinn um með hvaða hætti þeirri vinnu yrði háttað. Samhliða því munum við setja í gang vinnu við að undirbúa frumvarpsgerð og breytingar, breytta innviði, til þess að innleiða þá breyttu (Forseti hringir.) sýn sem boðuð er í þessari skýrslu.