149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:06]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna þó að ég geti kannski ekki að öllu leyti tekið undir túlkanir hans eða samanburð á fyrirliggjandi lögfræðiálitum. En látum það liggja á milli hluta að sinni.

Í þingsályktunartillögu hæstv. utanríkisráðherra segir, með leyfi forseta:

„Verði þessi tillaga samþykkt verður reglugerð (EB) nr. 713/2009 innleidd í íslenskan rétt með hefðbundnum hætti en með lagalegum fyrirvara um“ — og þá kemur greinargerð um það hvert verður innihald þessa lagalega fyrirvara — „að grunnvirki sem gera mögulegt að flytja raforku milli Íslands og orkumarkaðar ESB verði ekki reist eða áætluð nema að undangenginni endurskoðun á lagagrundvelli reglugerðarinnar og komi ákvæði hennar sem varða tengingar yfir landamæri ekki til framkvæmda fyrr en að þeirri endurskoðun lokinni.“

Hér er sem sagt ráðagerð um tiltekið skjal sem er lagalegur fyrirvari. Ég leyfði mér í ræðu minni í gær að auglýsa eftir því skjali og vil nota tækifærið núna þegar hér hefur flutt ræðu um málið sá sem kannski má teljast fremstur meðal jafningja í stuðningsliði ríkisstjórnarinnar sem formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Hefur hann séð þann lagalega fyrirvara?