149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:49]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég ítreka beiðni mína til forseta um að gera hlé á þessu fundarhaldi svoleiðis að við getum fengið almennilegar skýringar á þessu. Hér er t.d. farið rangt með þegar því er haldið fram að fræðimenn hafi sagt að þessir fyrirvarar eins og þeir líta út í einhverri greinargerð leysi þessi mál. Það kom einmitt skýrt fram að þeir hefðu ekki séð fyrirvarana en að þeir þyrftu að vera þess eðlis að þeir tryggðu að lögin tækju ekki gildi nema að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, þau tækju ekki gildi í millitíðinni.

Nú sjáum við líka hvað til að mynda annar sérfræðingur, Davíð Þór Björgvinsson, átti við þegar hann talaði um að þessir fyrirvarar væru bara til heimabrúks. Þá er líklega líka orðið mjög skýrt hvað fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra átti við þegar hann talaði um lofsverðar blekkingar. Ég er sammála honum um blekkingarhlutann, en ég tel þessar blekkingar hins vegar ekki lofsverðar og hvet þess vegna hæstv. forseta til að hlutast til um að við fáum skýringar á þessu.