149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:18]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvar síðara sinni. Þingmaðurinn vísaði til skoðanakannana þess efnis að þjóðin væri andvíg þessu. Það er mjög áhugavert við þær skoðanakannanir að þeim mun betur sem fólk hefur kynnt sér málið, þeim mun minni er andstaðan — og þeir sem hafa kynnt sér það hvað gleggst eru að eigin sögn helstu stuðningsmenn þess. Það er kannski vert að hafa í huga, þegar jafn miklu bulli hefur verið dreift um eitt mál eins og hér er raunin, þar sem allur þessi tími hefur farið í að hrekja innstæðulausar staðhæfingar sem hafðar hafa verið uppi — og raunar er starfrækt sérstök fésbókarsíða um þær, og hefur öllum stuðningsmönnum málsins umsvifalaust verið hent út af þeim vettvangi fyrir að reyna að taka rökstudda umræðu.

Það er ekkert að óttast í þessu máli. Við eigum aldrei að vera hrædd við að beita rétti okkar. Við eigum alltaf að berjast af fyllstu hörku fyrir hagsmunum okkar í innleiðingu og upptöku í EES-samninginn. Við gerðum það í þessu tilfelli. (Forseti hringir.) Sá tími liðinn. Nú er kominn tími til þess að ljúka málinu og það hefur ekkert nýtt komið fram sem gefur tilefni til að draga það á langinn.