149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:21]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um það. Ég sé ekkert annað sem valdheimildir ACER ná til, sem eru þá framkvæmdar af ESA í okkar tilviki ef sú staða kemur upp að orkustofnanir viðkomandi landa koma sér ekki saman um þær viðskiptareglur sem gilda skulu um viðskipti um flutningsmannvirki yfir landamæri. Við áttum okkur á því að þar liggur alltaf valdið og samningsvaldið til að byrja með. ESA væri þá í þessu tilviki ætlað að höggva á hnút ef slíkt kæmi upp.

Mér finnst dálítið kómískt í þessari umræðu að sýknt og heilagt er talað um gildi fyrirvara þess að slíkt regluverk gildi ekki þegar ekki sé til að dreifa flutningsmannvirki yfir landamæri. Mér finnst ekki þurfa mikinn fyrirvara um það. Það er frekar augljóst að reglur um flutningsmannvirki yfir landamæri geta ekki haft mikið gildi ef slíkt flutningsmannvirki er ekki til staðar og það er algjörlega á okkar forræði að reisa það.