149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er nú meira valdaframsalið. Ekkert um innanlandsmál, ekki neitt, bara reglur um sæstreng sem liggur á milli landa. Það eina sem við getum gert, eftir að hafa rifist við hina stofnunina í hinu landinu í sex mánuði og ekkert gengur, er að fá úrskurð um hvor hefur rétt fyrir sér eða ef báðar stofnanirnar biðja um aðstoð og segja: Við náum þessu ekki, við fáum úrskurð um þetta mál. Þær geta meira að segja beðið um sex mánuði í viðbót til þess að ná niðurstöðu áður en ESA eða ACER koma að málum.

Hitt atriðið sem mig langaði að minnast á var að ég sé ákveðna hliðstæðu við þennan neyðarhemil. Þetta er lögformlega leiðin og er rosalega einfalt og fyrirsjáanlegt mál, að einhverra sögn. En það sögðu Bretar líka um Brexit-ákvæðið. Það var rosalega fyrirsjáanlegt og auðvelt að grípa til þess og það ákvæði var í samningnum og ekkert mál að fara út og fá miklu betri samninga eftir það. Nei.