149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:55]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég lagði hv. þingmanni ekki eitt einasta orð í munn enda er það óþarfi. Ég nefndi ekki eina einustu rökvillu, ég talaði um staðreyndavillur. Og ef við erum að tala um staðreyndavillur skulum við byrja á því að þriðji orkupakkinn fjallar ekki á neinn hátt um það að við missum á einhvern hátt völd yfir eigin innra kerfi. (Gripið fram í.) Það var sagt. Það kom bókstaflega fram í ræðu hv. þingmanns.

Það er rangt að við missum stjórn á auðlindum okkar. Við gerum það ekki. Að það verði hlutast til, eins og hv. þingmaður sagði, um innri málefni Íslands varðandi stýringu á innri orkuauðlindum er heldur ekki tilfellið. Mér finnst alveg ástæða til að því sé haldið til haga hversu ótrúlega margar staðreyndavillur komu fram. Ég heyrði eiginlega enga rökvilla aðra en í raun ákveðna ad hominem villu í garð nokkurra fræðimanna og mér fannst hún kannski óþarfi.