149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:25]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekkert annað sem hangir á spýtunni hjá mér en að reyna að fá botn í það hvað sé lagalegur fyrirvari þegar við erum að ræða hér þingsályktunartillögu. Það er aðalspurningin. Það sem hefur fram komið í dag er að lagalegur fyrirvari sé í raun kannski ekkert annað en pólitísk yfirlýsing stjórnvalda og það sem meira er, af því að maður er að nefna öll þessi EFTA-lönd og yfirlýsingu þeirra, við erum svo sem aðilar að EFTA og ekkert að því, það er líka pólitísk yfirlýsing. Það er ekki lagalegur fyrirvari. Stefna stjórnvalda er heldur ekki lagalegur fyrirvari nema við sjáum það einhvers staðar skriflegt og með augljósum hætti hvað í því felst.