149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

um fundarstjórn.

[20:14]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég geta þess að umræðan kemur mér töluvert á óvart. Það var rætt á fundi þingflokksformanna í gær og forseti tilkynnti um það í dag að heimild væri fyrir því að vera hér fram á kvöld. Ég geri ráð fyrir að allir sem eitthvað þekkja til starfa þingsins viti að það getur þýtt fund fram á nótt ef umræður dragast á langinn.

Nú er það svo að með einhverju skipulagi væri hægt að stytta þessa umræðu, draga úr fjölda ræðumanna frá einstökum flokkum ef svo ber undir. Ef það er ekki hægt sé ég ekkert að því að við séum hérna fram yfir miðnætti og eitthvað fram á nótt, ef það verður til þess að halda samfellu í umræðunni. Ef menn treysta sér ekki til að vera hér lengur myndi ég leggja til að umræðan um málið héldi áfram á morgun í þinginu. Þá yrðu einhverjar breytingar á nefndastörfum þannig að við næðum að taka málið í samfellu í einhverja umræðu. (Forseti hringir.) En ég geri ráð fyrir að þingflokksformenn hafi, eins og ég, tekið eftir því hvernig umræðan var um þetta í gær og ég varð ekki var við neinar athugasemdir af því tagi sem hér eru hafðar uppi nú í kvöld.