149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:13]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ætla eiginlega að endurtaka leikinn frá því fyrir klukkutíma eða svo og hvetja hæstv. forseta til þess að hlífa okkur við því að ganga inn í nóttina með þetta mál. Ég ítreka bara að það skipulagsleysi sem stjórnarliðar hafa sýnt með framlagningu þessa máls á hvorki að koma niður á meðferð málsins í þingsal né meðferð annarra mála í nefndastörfum. Þetta er ekki á okkar ábyrgð. Við gerum kröfu um það að geta sinnt öðrum störfum okkar og að þessu máli verði haldið áfram í dagsljósi.

Hitt er síðan annað mál hvaða skoðun ég hef á því hvort menn eru að endurtaka sig eða annað slíkt. Það er allt annar handleggur. Ég held að enginn sé í vafa um hvert viðhorf okkar í Viðreisn er til þessa máls og framsögunnar almennt í því. Ég hvet hæstv. ráðherra til að standa við það sem hér var ákveðið um að láta kvöldfund standa og ræða mál fram eftir kvöldi. Hvort það þýðir tæplega eða rúmlega miðnætti er aukaatriði en þá er þetta orðið gott í bili.