149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:24]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að gefa mér tækifæri til að vekja athygli á mjög þýðingarmiklu atriði í hinni lögfræðilegu álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar, þ.e. þegar talað er um að engin heimild sé til að taka ákvörðun af því tagi sem hér um ræðir, þótt þannig standi á í svipinn að hér sé ekki sæstrengur. Það verður að meta málið í ljósi þess hver staðan yrði ef hér væri sæstrengur.

Við vitum að tímans þungi straumur gæti, í ljósi tækniframfara og hugsanlegra atvika sem við vitum ekki núna, leitt af sér að hér kæmi sæstrengur. Þá þarf náttúrlega að vera þannig frá málum gengið að þær ákvarðanir sem hafa verið teknar, eins og til að mynda er ráðgert í þessu máli, rekist ekki á ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.