149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:00]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég skil það sem svo að hann hafi ekki miklar væntingar til þess að innleiðing þriðja orkupakkans skapi grundvallarbreytingu gagnvart Eyjafjarðarsvæðinu, Vestfjörðum eða Suðurnesjunum. Ég biðst forláts á því að hafa gleymt að nefna Suðurnesin í því samhengi í byrjun en þau falla auðvitað þarna undir líka.

Hitt atriðið sem mig langaði til að koma inn á við hv. þingmann eru orð fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, Þorsteins Pálssonar, sem hefur kallað það lofsverðar blekkingar sem hafi þurft að beita til að koma málinu í gegnum þingflokk Sjálfstæðisflokksins. Nú veit ég að þingmaðurinn var í órólegu deildinni hvað þetta mál varðar. Hvaða skilning leggur hann í þau orð fyrrverandi formanns flokksins? Ég veit að mörgum rótgrónum Sjálfstæðismönnum þykja þau óþægilegt, svífandi um í umræðunni.