149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:21]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmönnum Birni Leví Gunnarssyni og Jóni Þór Þorvaldssyni, það væri ágætt að fá að vita hvað þetta á að standa lengi. En ég get alveg upplýst stjórnarþingmenn um það að við Miðflokksmenn erum í góðum gír með þetta allt saman og getum þess vegna haldið hér áfram alveg fram undir morgun. Þið þurfið ekki að hafa neinar áhyggjur af því, við eigum eftir að ræða margt.

En það sem er kannski (Gripið fram í.) athyglisvert við þetta er að stjórnarþingmenn skuli hafa áhyggjur af því að umræðan þurfi að standa þetta lengi. Ég skil ekki alveg hvað þeim gengur til með það. Það er auðséð að þeir hafa áhyggjur af því að að við ætlum að fara í einhvers konar málþóf, en við erum hér í upplýstri umræðu. En að sjálfsögðu þurfa menn að undirbúa sig (Forseti hringir.) fyrir morgundaginn, um það snýst þetta mál. Það er ósköp einfalt. Þær tafir sem hafa orðið á þessu (Forseti hringir.) máli eru stjórnarliðum að kenna. Það er bara þannig. (Gripið fram í: Hvernig?) Þeir geta nú bara hagað (Forseti hringir.) skipulagi sínu með betri hætti. Það hefur verið ægilega erfið fæðing að koma þessu máli hér í þingið. Eigum við svo bara, stjórnarandstaðan, (Forseti hringir.) að bugta okkur og beygja í þeim efnum?