149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:04]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég ætla þá að halda áfram þar sem frá var horfið í minni fyrri ræðu, ég náði ekki að klára hana hér. Ég ætla þá næst að víkja að því sem er lýtur að orðum iðnaðarráðherra sem sagði um þessa fyrirvara að þetta myndi ekki hafa áhrif þar sem fyrirvari yrði í lögum um að ekki yrði lagður sæstrengur nema með heimild Alþingis.

Það sem er líka athyglisvert við þessi orð hæstv. iðnaðarráðherra er að með þessu er ráðherra í raun að lofa upp í ermina á öðrum stjórnmálaflokkum sem fallið hafa gagnrýnislaust, má segja, fyrir þessum þriðja orkupakka og samþykkja hann. Það eru flokkar eins og Samfylkingin og Viðreisn og Píratar. Síðan er það náttúrlega mjög athyglisvert í þessu öllu saman að sumir stjórnmálaflokkar lýstu í raun og veru stuðningi sínum við orkupakkann og þessa þingsályktunartillögu áður en málið var lagt fram á Alþingi, áður en þingskjöl litu dagsins ljós. Það eru náttúrlega alveg ótrúleg vinnubrögð. Ég verð nú að segja það, herra forseti.

Ef við víkjum aðeins að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 713/2009, sem eru hluti af fylgigögnunum með orkupakkanum, þá segir, og hefur svo sem komið fram hér, að aðildarríkin skulu vinna náið saman og fjarlægja hindranir í vegi viðskipta með raforku og jarðgas yfir landamæri í því skyni að ná fram markmiðum bandalagsins á sviði orku. Skýrara getur ekki verið að fjarlægja hindranir. Rætt er um að ná fram markmiðum bandalagsins á sviði orku. Hver eru þessi markmið? Jú, þau eru þessi sameiginlegi markaður, sameiginlegi orkumarkaður Evrópu sem stefnir hraðbyr í það að þurfa mjög nauðsynlega að fá hreina orku.

Það er ekki síst þess vegna sem við erum mjög álitlegur kostur í augum Evrópusambandsins. Að héðan komi þessi hreina orka í framtíðinni sem við munum svo sannarlega þurfa vegna þess að þeir í Evrópusambandinu eru að reyna markvisst að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og eru að kljást við loftslagsmálin eins og við öll. Þetta höfum við séð bara með því að Evrópusambandið hefur teiknað upp kort þar sem sjá má sæstreng frá Íslandi og til Evrópu. Þetta er búið að stimpla með stimpli frá Brussel og væntanlega þá með samþykki stjórnvalda hér án þess að það hafi komið fram.

Ég held að Evrópusambandið gerir ekki svona kort nema að ráðfæra sig við Íslendinga eða íslensk stjórnvöld áður. Þannig að þarna eru þessi markmið bandalagsins okkur mjög ljós. Í því sambandi verðum við að hafa í huga að með þessari innleiðingu erum við einmitt að greiða fyrir því markmiði Evrópusambandsins að þeir fái aðgang að okkar hreinu orku. Í því felst þessi orkupakki. Hann hefur í sjálfu sér ekki þessa þýðingu akkúrat núna en hann mun skipta verulegu máli þegar sæstrengur verður lagður og það er styttra í það en margur heldur.

Tækninni fleytir fram í þessum efnum og ég hef líka rætt það hér að ég telji að sá þrýstingur komi auk þess héðan að heiman, frá Íslandi, að það verði hagsmunaaðilar hér á Íslandi sem þrýsti á um að lagður verði sæstrengur. Ég er sammála hv. þm. Bergþóri Ólasyni um að sá þrýstingur verði einnig frá Evrópu, en hann verður ekki síst héðan, ég er alveg sannfærður um það. Við sjáum bara það ferli sem átti sér stað í kjötmálinu.

Við sáum sjáum greinilega þrýsting hagsmunaaðila á Íslandi, það er verslunin og heildsalarnir o.s.frv. Samtök verslunar og þjónustu börðust fyrir því að hingað kæmi hrátt kjöt frá Evrópusambandinu og unnu að endingu sigur. Það tók u.þ.b. tíu ár, sem sýnir að þessi barátta ber árangur. Ég er alveg sannfærður um að þetta verði á svipuðum nótum með sæstrenginn. Hann mun koma, eigum við ekki að segja á næstu 10, 12 árum eða svo, jafnvel fyrr. Og þá eru engar hindranir vegna þess að við erum búin að undirbúa jarðveginn. Og ef það verður þá eitthvert lagaákvæði til staðar, sem þessi lagalegi fyrirvari á að vera, sem er mjög óljós, held ég að sé nokkuð ljóst að það verður verulegur þrýstingur hér heima um að þeim lögum verði einfaldlega breytt.

Þá erum við búin að fórna þessum dýrmætu lífsgæðum okkar Íslendinga, að búa við hreina og ódýra orku. Þá er grátlegt til þess að hugsa að við séum búin að fórna því í okkar harðbýla landi. Svo eru það þessi helstu rök þeirra sem styðja þetta mál, rök eins og að þetta skipti okkur ekki máli, eins undarlega og það hljómar. Samt er lögð þessi mikla áhersla á að flýta innleiðingu þessa máls. Ég tek heils hugar undir það sem sagt hefur verið hér um að stór mál eins og heilbrigðisstefna, sem búið er að bíða eftir í áraraðir, sé bara sett til hliðar til þess að hægt sé að ræða þetta mál inn í nóttina, eins og komið hefur fram. Það er mjög einkennilegt að hér eigi að halda þessari umræðu langt fram á nótt í skjóli myrkurs. Umræða sem skiptir þjóðina verulegu máli og þjóðin hefur sýnt að hún er engan veginn sammála því sem lagt er upp með af hálfu ríkisstjórnarflokkanna og þeirra meðreiðarsveina, sem eru jú Samfylkingin, Píratar og Viðreisn. Að þetta skuli rætt hér í skjóli myrkurs er náttúrlega alveg með ólíkindum og sýnir að vinnubrögð Alþingis þurfa svo sannarlega endurskoðunar við. Hér á að fara að halda svokallaðan starfsdag Alþingis og ég held að það sé ráðlegt að það verði á dagskrá þar að ræða hvers vegna sé svona mikill asi á svona mikilvægu máli.

Ég held að menn verði að velta því fyrir sér, að hæstv. forseti verði að velta því fyrir sér hvort svona vinnubrögð séu yfir höfuð þjóðinni þóknanleg. Að ræða eitt stærsta málið sem komið hefur upp á síðari árum hvað varðar Evrópska efnahagssvæðið og þátttöku okkar í því með þessum hætti. Ég verð að segja, herra forseti, að það eru vinnubrögð sem ekki eiga að líðast. Ég hef því miður ekki náð að klára ræðu mína þannig að ég óska eftir því að verða settur aftur á mælendaskrá, herra forseti, og held áfram þar sem frá er horfið í þeim efnum.