149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:50]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil geta þess strax að ég mun síðar koma inn á vangaveltur hv. þingmanns um íslensk stjórnmál og þá undarlegu stöðu sem er komin upp í þessu máli hvað þau varðar.

En að Noregi. Ég er með kenningu. Nú langar mig að bera þá kenningu undir hv. þingmann í ljósi orða hans í ræðu hér áðan. Kenning mín er sú að a.m.k. hluti af þessu hafi með það að gera að meiri hluti, væntanlega mjög mikill meiri hluti, norskra embættismanna í stjórnkerfinu eru Evrópusinnar. Þetta mál, þriðji orkupakkinn, reyndist vera mjög umdeilt mál í Noregi þar sem, eins og hér, ýmsir vöruðu við áhrifum af honum og það var erfitt að koma því máli í gegnum þingið. Því var í raun troðið í gegnum þingið. Þó ekki með þeim aðferðum sem við höfum kynnst hér — næturfundum, til að fela umræðuna — heldur með fyrirheiti um að menn fengju í gegn einhverja átta fyrirvara, sem virðist svo lítið hald í. En síðan hafa runnið á menn tvær grímur.

Ef Íslendingar vísa málinu aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar fá Norðmenn aðkomu að því og tækifæri til að rétta sinn hlut líka. Það getur ekki verið að einhverjir Evrópusinnar í Noregi sjái ofsjónum yfir því að málið fari aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar, þar sem ekki aðeins Íslendingum heldur líka vinum okkar Norðmönnum gefst tækifæri til að fá raunverulegar undanþágur (Forseti hringir.) sem skipta máli fyrir þessi lönd og verja hagsmuni, ekki bara Íslands heldur Noregs og vonandi Lichtensteins líka.