149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:58]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eftir þessa tvo daga sem þetta mál hefur verið í síðari umræðu þá hef ég ekki á tilfinningunni að þingmenn Miðflokksins séu þeir sem hafi lesið sér minnst til um málið, svo ég sé alveg heiðarlegur með það. Þetta slær mann auðvitað þannig að sérstaklega í þeim þingflokkum þar sem erfiðast var að kyngja málinu hafi menn leitað, hvort sem þeir gera það með „control – find“ eða öðrum leiðum, að þægilegustu leið út úr málinu, „path of least resistance“, með leyfi forseta, eins og það er einhvers staðar kallað.

Við þingmenn Miðflokksins getum ekki annað en unnið málið þannig áfram að við náum fram svörum við þeim spurningum sem hafa vaknað í umræðunni í dag. Það kom mér dálítið á óvart, verð ég að viðurkenna, þegar hv. þm. Jón Þór Þorvaldsson segir frá því — nú var þingmaðurinn varamaður fyrir mig þegar fyrri umræðan fór fram, þá var ég staddur erlendis á vegum þingsins þannig að ég missti af henni — og ég verð að viðurkenna að ég bara gaf mér að hæstv. utanríkisráðherra hefði setið hér í gegnum umræðuna alla og svarað öllum þeim spurningum sem komu upp. Ef hann gerði það ekki kemur það enn meira á óvart að hann sjáist ekkert í umræðunum hérna. Enda sjálfsögð spurning sem kom upp úr fjögur í dag. Við höfum ekki enn þá fengið svar við henni nema með þessum furðuspretti hérna þegar menn voru að leita fyrirvörunum og fundu fjóra þegar þeir ætluðu að finna einn.