149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:33]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og get glatt hann með því að ég er ekki kominn svo langt í þeim ræðum sem ég hef flutt hér að ég ætlaði sérstaklega að rifja upp feril Vinstri grænna þegar kemur að þessum orkupakkamálum. Það er mjög athyglisvert að skoða ræður þingmanna, eins og t.d. hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Ég mun rifja það hér upp á eftir að sú mikla andstaða sem kemur fram í þeim ræðum gegn orkupakka eitt og tvö er náttúrlega mjög athygliverð.

Maður spyr sig: Hvernig getur hv. þingmaður sem flytur svo kröftugar og langar ræður gegn sameiginlegum raforkumarkaði Evrópusambandsins, orkupakka eitt og orkupakka tvö, umpólast og skipt um skoðun við það eitt að flokkur hans er kominn í ríkisstjórn? Það vekur svo mikla undrun að maður á varla orð til að lýsa því og sýnir að menn hafa ekki þá miklar áhyggjur af því að að málið varði þjóðina þegar þeir geta skipt svona snögglega um skoðun og umpólast algjörlega.

Ég mun rifja þetta upp í ræðu hér á eftir. Ég hef líka tekið eftir því að það fer lítið fyrir Vinstri grænum í þessari umræðu. Eflaust vita þeir upp á sig skömmina að hafa talað mjög gegn orkupökkum eitt og tvö og ætla svo að keyra í gegn hér orkupakka þrjú eins og ekkert sé.