149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:40]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Nú er svo statt fyrir mér að ég er tiltölulega nýkominn hingað inn sem varaþingmaður og hef litlum tíma eytt á þingi og í starfi í nefndum. En einhvern veginn var það minn skilningur að í nefndarstarfinu væri það svo að nefndir Alþingis kölluðu fyrir nefndina hagsmunaaðila og umsagnaraðila, eftir atvikum, til að fá sjónarmið fólks, sjónarmið þjóðarinnar, og vinna síðan úr þeim upplýsingum sem þar kæmu fram — ég vil endilega að ég sé leiðréttur ef ég fer rangt með — og útbúa síðan nefndarálit um hvert mál fyrir sig, sem síðan kæmi til kasta Alþingis að vinna með og, eftir atvikum, forma þingsályktunartillögu eða lög.

Nú háttar svo til að í þessu tiltekna máli er það orðið nokkuð ljóst að meginþorri þjóðarinnar virðist ósáttur við vinnubrögðin eða þá niðurstöðu sem verið er að tefla fram hér. Og 70% álitsgjafa sem komu fyrir utanríkismálanefndina lýstu sig andsnúna því sem verið er að leggja fyrir í dag.

Eru það alvanaleg vinnubrögð að farið sé gegn vilja meiri hluta þeirra sem koma fyrir nefndir þegar nefndarálit eru unnin, eins og hér um ræðir?