149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

tækifæri garðyrkjunnar.

[17:03]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég nefndi í fyrri ræðu að tollar hefðu verið afnumdir, það var að sjálfsögðu eingöngu á nokkrum inniræktuðum plöntum. En það er kannski ástæða til að hugsa einmitt á þá leið að fara að afnema tollana almennt. Það skilaði góðum árangri síðast og gæti gert það núna, sérstaklega ef á móti kemur betri stuðningur frá ríkinu til að efla bændur enn frekar.

Mig langar til að nefna í þessu samhengi framtíðina, ekki bara tæknina, heldur fólkið. Nú hefur Garðyrkjuskólanum á Reykjum verið sniðinn afskaplega þröngur stakkur í gegnum tíðina og þar hafa verið m.a. mjög takmörkuð tækifæri til að nýta tæknina til að nútímavæða námið. Það eru margir að gera flotta hluti þar til að reyna að ýta þessu í þá átt en þau búa við það að vera í því sem næst ónýtri byggingu og margt sem þarf að laga.

Þetta er held ég ákveðið einkenni á greininni. Það tala allir vel um garðyrkju og garðyrkjubændur, en það er minni áhugi á því að setja garðyrkju á þann stall sem hún verðskuldar. Við þurfum bæði í menntakerfinu og svo í gegnum búvörusamninga, jafn gallaðir og þeir eru, að fara að hreyfa þetta upp á við, á hærri stall, ekki síst þegar við setjum þetta í samhengi við loftslagsbreytingar þar sem við höfum mörg tækifæri til þess að minnka sótspor okkar og efla innlenda framleiðslu til að koma til móts við t.d. minnkandi kjötneyslu og minnkandi innflutning á grænmeti. Það er til mikils að vinna. En við verðum að horfa á heildarmyndina, frá uppruna tækjanna, frá fólkinu sem vinnur í greininni (Forseti hringir.) og alveg fram til neytendanna sem koma til með að kaupa þessar fínu vörur.