149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

um fundarstjórn.

[17:21]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég verð að lýsa furðu minni á því að hv. þingmenn Miðflokksins séu ekki hér hoppandi sælir með að byrja umræðuna um þriðja orkupakkann strax. Næstur á mælendaskrá held ég að sé hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem er þá að fara í sína fimmtu ræðu um þingsályktunartillöguna er varðar þriðja orkupakkann.

Ég veit að hér kvartaði fólk að sjálfsögðu yfir því að þurfa að standa vaktina alla nóttina. Ég hefði haldið að ágætt væri að við myndum þá byrja umræðuna um hálf sex og gætum þá vonandi lokið henni einhvern tíma þegar liði á kvöldið. Ef úthaldið er meira er alla vega eitthvað aðeins minna sem þarf í næturfundi og hægt að nota dagsbirtuna í að ræða þetta mikilvæga mál, því að augljóst er að margir þingmenn eiga enn þá eftir að koma mikilvægum skilaboðum á framfæri hvað það varðar þrátt fyrir alla þá klukkutíma sem farið hafa í umræðunni nú þegar.