149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Gallinn við þessa fyrirvaraumræðu, svo ég byrji nú þar, er sá að við höfum ekki enn þá séð, að mínu viti alla vega, ég veit að hv. þingmaðurinn er líklega bara ósammála mér um það, hvernig þessi fyrirvari á að vera orðaður, hvernig hann á að geta gert að verkum að við getum haldið því fram sem við höldum fram, eða þeir sem fylgja málinu, að við séum undanskilin þessari innleiðingu með þeim hætti sem fyrirvarinn eða það sem kemur fram í greinargerðinni á við.

Ég óttast líka að með því að setja fyrirvara, hvernig sem hann verður nú, ég átta mig ekki á því hver hann verður, í lög eða reglugerð, þá hafi hann enn þá minna gildi, hvort sem það er fyrir íslenskum dómstólum eða annars staðar. Vegna þess að hvergi er kveðið á um í EES-samningnum að fyrirvarar sem slíkir hafi eitthvert gildi.

Stóra málið við ACER og það sem þar er í gangi er að með því að taka upp tilskipanirnar sem vísa í ACER erum við að innleiða hugmyndafræðina, innleiða markmiðin, við erum í rauninni að segja að við ætlum að taka upp það kerfi sem ACER byggir á. Hvað þýðir það til framtíðar? Ég kom inn á það í ræðu minni áðan að ef hugmyndafræðin og markmiðin ná algerlega fram að ganga og ná til Íslands líka — ég er ekki enn þá búinn að sjá að við getum verið undanskilin þeim, mér finnst alla vega allt í lagi að menn bendi mér á hvar það sé — erum við að segja að við ætlum að vera aðili að þessum sameiginlega markaði, innleiða allar þær reglur sem koma þaðan.

Og ef við ætlum að halda áfram að innleiða allt sem kemur fram varðandi ACER og slíkt: Ef það skyldi koma sæstrengur, sem ég veit ekki hvort kemur einhvern tímann eða ekki, munum við að sjálfsögðu, hlýtur að vera, smellpassa inn í það fyrirkomulag sem þegar er orðið, með ACER og öllu því. Því að við erum búin að innleiða allar reglurnar og alla hugmyndafræðina, öll markmiðin sem það stendur fyrir.