149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta eru býsna stórar spurningar, sérstaklega sú fyrsta, hvort maður hafi gert einhver mistök. Ég veit ekkert um það. Það getur vel verið að ég hafi gert einhver mistök þarna, hef ekki hugmynd um það. Ég fylgdi hins vegar, og við, þeim reglum sem gilda um upptöku gerða og því ferli sem gildir um EES-samninginn. Við fórum í viðræður við Evrópusambandið um undanþágur. Við leituðum leiða til að losna undan þessum pakka. Á það var lítið hlustað, í rauninni ekkert hlustað, ekki síst vegna þess að við höfðum staðið okkur svo vel við að innleiða fyrri orkupakka. Málið fer til þingsins, er þar til umfjöllunar töluvert lengi, beðið er um frest, ef ég man rétt, frá þinginu um að vinna betur að málinu og lengur, þannig að málið var allt í eðlilegum farvegi.

Ég veit ekki hvar mistökin hefðu átt að vera, hvort það hefði átt að taka málið frá þinginu og böðlast einhvern veginn með það fyrir stjórnvöldum í Evrópusambandinu. Ég átta mig ekki á því. Það hefði væntanlega litið á það sem algjörlega hræðilegan atburð, að rífa málið úr þinglegri meðferð. Þannig hefur málið bara verið.

Menn verða hins vegar að sætta sig við það að það er um haustið 2016 og vorið 2017 sem taka þarf ákvörðunina. Menn geta ekki flúið það, menn þurftu að taka ákvörðun í sameiginlegu EES-nefndinni í maí 2017. Þar voru kannski gerð mistök, ég veit það ekki, hugsanlega. En við getum leiðrétt þau mistök, ef þau voru gerð, með því að fara núna fyrir EES-nefndina.

Varðandi það hvort ég geti bent á að öryggi eða sjálfstæði sé ógnað þá óttast ég það í rauninni. Mér finnst óvissunni ekki eytt um að hér geti einstaklingar eða fyrirtæki, íslensk eða eða erlend, farið hreinlega í mál við Ísland fyrir EFTA-dómstólnum og krafið okkur um að fá að leggja sæstreng. (Forseti hringir.) Og hvað gerist þá? Því hafa fylgjendur ekki svarað.