149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:36]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Andsvör, þau virka kannski ekki vel hér, ég veit það ekki. Jafn aðgangur landa að orku, aðskilnaður einhvers eignarhalds — ég var að spyrja um valdheimildir til að skipta sér af orkuframleiðslumagni, lagningu nýrra leiða eða flutningsleiða yfir landamæri. Ég var að spyrja um raunverulegar valdheimildir ACER sem að einhverju leyti skýra þá mynd sem viðkomandi hv. þingmenn eru að búa til.

Gott og vel, ég fékk ekkert svar við því að mínu mati. Sæstrengur — ég var að spyrja hvernig Evrópusambandið eða ACER gæti valtað yfir þær lögfræðilegu heimildir sem við höfum hér sem eru forsenda fyrir því að sæstrengur verði annaðhvort lagður af okkur eða öðrum. Það er ekki hægt að þvinga fram sæstreng — hann verður lagður, segja menn — öðruvísi en að gera það. Hv. þingmaður verður að koma með einhverjar skýringar á því ef þetta eiga að vera andsvör.