149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:52]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef svo sem ekki úttalað mig um það hér hvort ég sé á móti sæstreng eða ekki, en ég er hins vegar tilbúinn til að úttala mig um það að ég er á móti því að hann verði lagður á forsendum annarra en okkar Íslendinga. Það er alveg rétt, sem hv. þingmaður segir, að flestir samningar eru þannig að maður gefur eitthvað eftir og maður vill fá eitthvað til baka. En ég get ekki séð annað en að það blasi við að þegar búið verður að innleiða þessa gerð sé orðið of seint að setja fyrirvara. Og það kemur alveg skýrt fram í máli þessara téðu fræðimanna, sem við ræðum hér, um mögulegar lausnir, að fyrri leiðin er einföld lagalega séð og hún á sér stoð í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Ég hef hvergi séð það skjalfest að sú leið sem valið er að fara, (Forseti hringir.) að setja lagalega fyrirvara, eigi sér stoð í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Og ef svo er, ef það er rétt túlkun hjá mér, þá hlýtur það að vera samningsbrot og okkur verður væntanlega brigslað um að hafa brotið samninginn.