149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:09]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Svo ég reyni að setja kjarna málsins fram hvað áhyggjur mínar varðar þá er það framtíðarskipan orkumarkaðsmála. Ég held að ég geti ekki súmmerað það betur upp en svo. Það er kjarninn í áhyggjum mínum, framtíðarskipulag orkumarkaðsmála. Á meðan stuðningsmenn pakkans eða þingsályktunartillögunnar voru hér enn í ræðum þá spurði ég nokkra þeirra hver megináhrifin væru frá innleiðingu pakkans fram til lagningar sæstrengs. Svar þingmannanna var, væntanlega út frá talpunktum, í öllum tilvikum efnislega það sama, að það væru engin áhrif nema … Fyrirgefðu, hæstv. varaforseti — utanríkismálanefndar, af því að hann hristir hausinn. Talað var um gegnsæið og neytendavernd og þar fram eftir götunum, en ekkert var talað um stefnu og stjórn orkumarkaðsmála. Þar liggja áhyggjur mínar. Því að það hefur ósköp lítið upp á sig ef við höfum einhverja stjórn á því í framtíðinni hvort sæstrengur verður lagður hingað eða ekki ef við missum hið snarasta stjórn á orkumarkaðsmálunum og að fullu tryggilega eftir að sæstrengur hefur verið lagður.