149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:04]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ágætisyfirferð. Hann fór að velta fyrir sér í ræðu sinni þeim sem ásælast orkuna okkar og við höfum séð undanfarin misseri nokkuð margar fréttir þess efnis að fyrirtæki hafa viljað setja upp vindmyllur á Íslandi. Það eru meira að segja fyrirtæki sem er í eigu norskra sveitarfélaga, sem dæmi, og fylkja.

Hægt er að gefa sér að slík fyrirtæki, í eigu norska ríkisins eða sveitarfélaga, séu ekki að fara út í þessa fjárfestingu nema þau gefi sér fyrir fram að það skili nokkrum arði. Og það sem ég velti fyrir mér er í fyrsta lagi: Af hverju er þessi áhugi Norðmanna? Og ég velti því fyrir mér hvað við getum gert í þessu og vil velta upp einu dæmi: Ef orkuframleiðandi á Íslandi, t.d. norskur vindorkuframleiðandi, setur upp vindorkuframleiðslu hér og vill selja orku til Þýskalands í gegnum sæstreng, sem hann kostar og leggur, getur hann þá gert það?