149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:16]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nefnilega algjörlega geirneglt hjá hv. þm. Ingu Sæland þegar hún segir að við þurfum að horfa á þessa heildarmynd. Mér fannst hún gera það ágætlega í sinni ræðu vegna þess að við verðum aðilar að þessum sameiginlega innri markaði. Þetta snýst nefnilega allt um það.

Okkur er sagt að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af sæstreng. Það getur verið að einhverju leyti ágætis pæling. En ef við snúum dæminu við og ímyndum okkur að þegar við erum orðin hluti af þessum sameiginlega innri markaði líti ESB svo á að þeim beri skylda til þess að leggja sæstreng. Þá vil ég spyrja hv. þm. Ingu Sæland hvaða skoðun hún hafi á því.

Og annað: Hvaða refsiaðgerðir átti hv. þingmaður við þegar hún talaði um refsiaðgerðir af hálfu ESB, þ.e. ef við förum ekki eftir því sem ætlunin er þegar við horfum á þessa heildarmynd?